Blóðþrýsting

Hæhæ, ég er 22 ára og er búin að vera hraust mitt alla tíð fyrir utan þreytu og hausverki sem ég taldi vera eðlilegt. Ég er búin að vera fylgjast með blóðþrýstingi hjá mér síðustu daga og efri mörkin eru búin að vera eðlileg (i kringum 124) en neðri mörkin eru búin að vera i kringum 88-92 sem er allt of mikið. Læknirinn segir að þetta sé eðlilegt? Þegar neðri mörkin eru svona há hjá mér fæ ég meira segja sjóntruflanir og á erfitt með að einbeita mér.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Heilsuhraustum einstaklingi ætti ekki að stafa bráða hætta af minniháttar hækkun á diastolu (minna en 95 mm) hafi hann ekki aðra þekkta áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma fyrir. Það eru þættir eins og sykursýki, nýrnasjúkdómar, offita, reykingar, æðakalkanir eða saga um hjartasjúkdóma. Haldi einstaklingur hins vegar áfram að hafa slíka hækkun getur það á endanum þróast yfir í háþrýsting og því mjög gott að fylgjast regluega með. Hægt er að hafa áhrif á blóðþrýsting með því að minnka salt neyslu, hreyfa sig reglulega, halda kjörþyngd, forðast stress, hætta að reykja og minnka neyslu áfengis, svo eitthvað sé nefnt. Haltu áfram að fylgjast með blóðþrýstingnum þínum, mældu hann alltaf á sama tíma dags og passaðu að vera búin að hvíla þig í 5-10 mínútur áður en þú mælir. Hafðu samband við lækninn þinn og óskaðu eftir frekari uppvinnslu fyrst þú finnur fyrir einkennum eins og sjóntruflunum og einbeitingarleysi. Hann getur þá sent þig áfram til hjarta- eða æðasérfæðings sjái hann þess þörf. Læt fylgja með nokkrar greinar með sem gaman er að lesa um þetta.

https://newsnetwork.mayoclinic.org/discussion/lowering-elevated-diastolic-blood-pressure-will-lessen-chance-of-developing-elevated-systolic-blood-pressure/

https://heilsanokkar.is/passadi-thrystinginn-madur/

https://www.medicalnewstoday.com/articles/318716.php

Gangi þér vel

Thelma Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur