Blóðþrýstingur barna

Fyrirspurn:


Hæ mig langaði til að forvitnast um hvað blóðþrýstingur hjá 10 ára dreng ætti að vera (er það ekki 100 á móti 45-50) en hann er 90 og eitthvað á móti 63 og hærra ég er búin að gera á honum nokkrar mælingar með nokkra daga millibili og ekki á sama tíma en hann er alltaf svipaður púlsin er einnig um 86, er þetta eitthvað sem að ég ætti að hafa áhyggjur af þá er ég að spá í neðri mörkin??

Aldur:
33

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl vertu,

Gildi fyrir blóðþrýsting hjá börnum eru almennt lægri en hjá fullorðnum – og hækka eftir því sem þau eldast og þyngjast. Eina rétta tölu fyrir ákveðinn aldur er erfitt að gefa upp því hún ræðst m.a. af hæð og þyngd viðkomandi barns og 10 ára drengir eru afar misháir og þungir svo ég get ekki sagt þér neina eina tölu. Samkvæmt viðmiðunartöflum eru tölurnar sem þú nefnir hins vegar alveg innan eðlilegra marka og það að hann er alltaf svipaður er líka gott merki.
Ég mæli ekki með því að þú sért að mæla blóðþrýstinginn oft hjá drengnum þínum þar sem það getur valdið honum óþarfa áhyggjum og kvíða.  Ef þér finnst hins vegar ástæða til að fylgjast með þessu eða það er eitthvað í heilsufari hans sem þú ert að hafa áhyggjur af þá skaltu ekki hika við að fara með hann til læknis.

Með bestu kveðju
Guðrún Gyða Hauksdóttir
Hjúkrunarfræðingur