Blóðþrýstingur hærri á morgnana ?

Spurning:
Hver getur verið ástæða fyrir því að blóðþrýstingur er hærri á morgnana en þegar líður á daginn? Þetta getur munað allt frá 80-120 upp í 93-130? Getur þetta tengst svefntruflunum? Með fyrirfram þökk.

Svar:
Blóðþrýstingur er breytilegur í fólki frá tíma til tíma og við þekkjum ekki orsakir þessa breytileika. 
Í svefni er blóðþrýstingur lægri en í vöku en fer hækkandi nokkru áður en fólk vaknar.
Svefntruflanir og hrotur geta hækkað blóðþrýsting verulega, þannig veldur kæfisvefn blóðþrýstingshækkun í mörgum tilvikum.  Þetta má greina með svefnrannsóknum og með 24 klst blóðþrýstingsmælingum sem hægt er að fá gerðar ef þörf er á.  Mælingarnar sem vísað er til þ.e. 120/80  og 130/93 mmHg. eru þó tæplega nægilega óvenjulega til að þörf sé á slíkum rannsóknum.

Uggi  Agnarsson, læknir Hjartavernd