Blóðþrýstingur hærri hægra megin?

Spurning:
Maðurinn minn þarf að fylgjast reglulega með blóðþrýstingnum og tekur lyf til að lækka hann. Eitt sem við tökum eftir þegar hann mælir blóðþr. að efri mörkin á hægri handlegg eru alltaf töluvert hærri er á þeim vinstri t.d. 120 á móti 140 á hægri. Er þetta eðlilegt eða getur það bent til að eithvað sé ekki í lagi ?
Svar:

Blóðþrýstingur getur verið mismunandi í slagæðum hvors handleggs ef einhver hindrun er á blóðrennslinu svo sem æðakölkun eða óvenjulegir hlykkir eða breytingar í æðavegg eru til staðar.

Við mælingu á blóðþrýsting eru hærri gildin talin nær hinu sanna gildi og ákvarðanir um meðferð byggjast m.a. á þessu hærra gildi.

Ef munur er lítill skiptir þetta oft ekki máli en þó er rétt að bera svona mismun undir þann lækni sem sér um meðferðina, til að kanna nánar orsakir fyrir  þessum mun.

Kveðjur Uggi Agnarsson, hjartalæknir
Hjartavernd