Blóðþrýstingurinn lækkar þegar ég hætti að reykja

Spurning:

Sæl.

Ég er í vandræðum út af astma, kinnholubólgum og endurtekinni hálsbólgu.

Ég er 45 ára er mjög ofnæmisgjörn. Er að reyna að hætta að reykja, en er í vandræðum út af lágum blóðþrýstingi, sem lækkar þegar ég hætti að reykja.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl og blessuð.

Þessi heilsufarsvandamál sem þú telur upp hljóma afar kunnuglega. Við sem störfum hjá Ráðgjöf í reykbindindi grænt númer 800-6030 verðum áþreifanlega varar við þesssi vandamál hjá skjólstæðingum okkar.

Í tóbaksreyk eru meira en fjögurþúsund efnasambönd, um fjörtíu þeirra geta valdið krabbameini.

Mig langar að vekja athygli þína á því að efni í tóbaksreyk svo sem Akrólein, formaldehýð og blásýra eru sterk eiturefni sem erta augu, öndunarfæri og húð. Þetta eru ofnæmisvaldar og geta valdið asma og teppusjúkdómum í lungum.

Það er nú svo að við það að reykja eyðileggst lungnahreinsikerfið okkar að einhverju leyti. Þegar hætt er að reykja eykst stundum uppgangur fyrstu vikurnar, það er vegna þess að hreinsikerfið í lungunum er að jafna sig. Reykingar breyta einnig sýrustigi í munnholinu, þess vegna er meiri hætta á tannlosi hjá reykingamönnum og þeim sem nota munntóbak.

Reykingar veikja ónæmiskerfi okkar, það er ástæðan fyrir því að reykingafólki er hættara við að fá sýkingar í lungu og kinnholur. Að hætta að reykja er eina ráðið sem dugar til að ónæmiskerfið nái að jafna sig.

Þegar fólk hættir að reykja er mikilvægt að auka vökvainntekt og þá sér í lagi vatnsdrykkju, einnig auka hreyfingu og taka inn lýsi og C-vítamín daglega. Þetta bætir blóðrásina og minnkar fráhvarfseinkenni þegar hætt er að reykja og hefur góð áhrif á blóðþrýstinginn. Ef þú hefur áhyggjur af of lágum blóðþrýstingi, þá fæst í heilsubúðum lakkrísrót sem hækkar lítillega blóðþrýstinginn og hefur reynst mörgum vel að naga hana þegar löngun í tóbak gerir vart við sig. Aðalatriðið er að gefa sér góðan tíma til að fara á fætur og það getur verið gott að vera í teygjusokkum á daginn, það minnkar líkur á blóðþrýstingsfalli.

Vona að þú náir betri heilsu og bættum lífsgæðum við að hætta að reykja. Við hjá Ráðgjöf í reykbindindi erum við símann alla virka daga klukkan 17 – 19 hafðu endilega samband, hlökkum til að heyra hvernig þér gengur.

Sigríður Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Ráðgjöf í reykbindindi.