Spurning:
Sæll.
Ég hef verið að lesa bók sem manna á meðal kallast „Blóðflokkabókin”. Ég er í O-blóðflokki og mér sýnist að ég eigi fyrst og fremst að neyta kjötmetis. Ég er hjarta- og æðasjúklingur og hef verið að rembast við að vera dugleg að borða fitusnauða fæðu eins og ávexti og grænmeti. Er þetta enn eitt ruglið eða ný næringarkenning sem byggir á vísindum næringarfræðinnar?
Svar:
Sæl.
Blóðflokkabókin byggir ekki á vísindum næringarfræðinnar og sem næringarfræðingur finnst mér ótrúlegt að fólk skuli leggja trúnað á skáldverk sem þetta. Þannig á fólk í O-blóðflokki fyrst og fremst að borða kjöt en fólk í A-blóðflokki korns og grænmetis. Sagan segir að ef menn borði ekki í anda síns blóðflokks hlaupi blóðið í kekki. En allir ættu nú að sjá í hendi sér að ef það gerðist ættum við öll að vera dauð þar sem kekkjamyndun leiðir til stíflunar æða. Að halda fram kenningu sem þessari getur verið stórvarhugavert enda stangast hún gjörsamlega á við ráðleggingar virtra heilbrigðisstofnanna um allan heim. Sem dæmi má nefna að það er óhrekjanleg staðreynd að mikil neysla fitu (sérstaklega mettaðrar fitu) eykur líkur á hækkandi blóðfitu og þar með hjarta- og æðasjúkdóma. Ef við tökum dæmi um mann sem er í O-blóðflokki og þjáist af kransæðasjúkdóm. Hann hefur fengið ráðleggingar um æskilegt mataræði hjá Hjartavernd og í kjölfarið aukið neyslu korns, ávaxta og grænmetis. Hann sölsar um og fer að borða í anda síns blóðflokks, hættir að borða jurtafæðið og snýr sér á fullu í kjötátið með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég vil því kvetja þig til að halda áfram að vera dugleg að neyta ávaxta og grænmetis og stilla fituneyslu í hóf.
Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur