Blóðleysi á meðgöngu?

Spurning:
Góðan daginn, ég er að ganga með mitt fimmta barn og bý erlendis. Ég haf alltaf verið frekar lág í blóði á meðgöngum og hef þurft að fá B12 sprautur og á síðustu meðgöngu fékk ég reglulega lyf í æð sem heitir Venofer. Svo fór ég í skoðun hér sem ég bý þegar ég var komin 11 vikur og var komin niður í 7,6 í blóði sem ég hélt að væri frekar lágt en læknirinn hér talaði um að það væri bara mjög gott að vera 7,6. Ég er mjög oft með hausverk, er mjög mæðin, vinstri fóturinn á mér er allur í æðahnútum og mig verkjar oft í hann. Ég er að taka járntöflur, mér var bannað að taka fólinsýru þegar ég var komin 3 mán. því ljósmóðirin sagði að það ætti bara að taka hana inn fyrstu 3 mánuðina. Er þetta rétt og er gott fyrir ófríska konu að vera 7,6 í blóði og má maður ekki taka inn fólinsýru eftir þriðja mánuð? Hvað get ég gert.
Með fyrirfram þökk

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Það sem verið er að mæla í blóði hjá ófrískum konum kallast blóðrauði (hemoglobin) og er eðlilegt gildi hjá konum sem eru ekki barnshafandi á bilinu 118-158 g/L. Það er eðlilegt að þetta gildi lækki á meðgöngu en þó ekki niður fyrir 110 g/L. Blóðrauðinn segir okkur til um járnbirgðir líkamans.  Ég er ekki viss hvaða tala þetta er sem þú ert að segja frá (7,6) hún samræmist ekki þeim mælieiningum sem notaðar eru um mælingu á blóðrauða. Það eru hins vegar stundum teknar aðrar blóðprufur á meðgöngunni því þyrftir þú að fá nánari útskýringar hjá lækninum þínum eða ljósmóðurinni þinni í mæðravernd á þessari mælingu þ.e. hvað var verið að mæla.
Varðandi fólinsýru, þá er mælt með henni á fyrstu 3 mánuðum meðgöngunnar og fyrir meðgöngu vegna þess að hún er nauðsynleg fyrir frumuskiptingu í líkamanum og sannað er að hún kemur í veg fyrir ákveðna fósturgalla. Ef þú ert að taka fjölvítamín og borðar fjölbreytta fæðu þá er óþarfi að vera að taka þennan auka skammt sem mælt er með fyrstu þrjá mánuðina.  Margar fæðutegundir innihalda fólínsýru sérstaklega grænmeti, ávextir, baunir og vítamínbætt morgunkorn. Fólinsýra er ekki skaðleg en þó er ekki ástæða til að taka meira en 400 míkrógrömm á dag, nema læknir eða ljósmóðir ráðleggi annað  Ég vona að þetta svari að nokkru leyti spurningu þinni, þér er velkomið að senda mér aftur ef þú kemst að því hvað var verið að mæla hjá þér í blóðinu. Gangi þér allt í haginn.
Kveðja
Brynja Helgadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur