Spurning:
Góðan daginn og takk fyrir greinargóð svör við síðustu fyrirspurn.
Núna langar mig að vita, þegar ég fer í mæðraskoðun hvort ekki eigi að taka blóðprufu í hvert sinn?
Á ekki læknir að skoða mann allavega í fyrstu skoðun?
Það eru 14 ár síðan ég átti barn síðast og þá var þetta svona.
Ég er orðin 38 ára (komin 5 mán.) og þurfti að fara í snemmsónar, blóðprufu o.s.frv. vegna áhættumeðgöngu v/aldurs en svo er bara ekkert fylgst meira með, mig langar bara að vita hvort ljósmóðirin er að gera rétt?
Svar:
Þótt þú sért orðin 38 ára ertu ekki beinlínis í áhættumeðgöngu nema að undirliggjandi séu einhverjir sjúkdómar hjá þér eða barninu. Að öðrum kosti færðu hefðbundið meðgöngueftirlit sem felst í ljósmæðraskoðun við hverja komu og sérfræðingsskoðun í byrjun meðgöngu og þegar líður að lokum hennar. Blóðprufa er tekin í upphafi meðgöngu og ef þú ert rhesus neikvæð við 24 – 26 vikur, 32 – 34 vikur og 36 – 38 vikur, en annars eru blóðprufur teknar eftir þörfum til að meta blóðgildin ca. 2 sinnum á meðgöngunni. Hafir þú einhverjar spurningar eða óskir þú eftir viðtali við lækni ræðir þú það bara við ljósmóðurina þína – mér sýnist að hún sé alveg að gera rétt.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir