Blöðrunýru

Fyrirspurn:


Mig langaði að forvitnast um blöðrunýru. Á annarri meðgöngunni hjá mér var ég skoðuð í sónartæki og læknirinn hélt að ég væri með eitthvað sem hann kallaði blöðrunýru og ráðlagði mér að fara til sérfræðings eftir fæðinguna og láta skoða þau nánar, sem ég gerði aldrei. Langaði bara að vita hvort þetta væri eitthvað sem þarf að skoða. Hef engin einkenni og er mjög heilsuhraust. Var  bara að spá í seinni tíma hvort svona lagað geti verið að skemma eitthvað án þess að maður verði vör við það ?

Aldur:
38

Kyn:
Kvenmaður

Svar: 

Komdu sæl
 
Blöðrur í nýrum geta verið af nokkrum tegundum.  Algengast eru stakar blöðrur í nýrum sem hafa enga þýðingu og finnast fyrir tilviljun við myndgreiningarrannsóknir af nýrum.  Svokölluð blöðrunýru geta svo verið af tveimur formum.  Annars vegar er það saklaus kvilli sem ekki hefur neinar afleiðingar í för með sér.  Hins vegar getur það verið sjúkdómur sem getur valdið nýrnabilun upp úr miðjum aldri.  Þann sjúkdóm er mjög mikilvægt að greina til að hindra eða að minnsta kosti að seinka því að nýrnabilun komi fram.  Ég myndi því ráðleggja þér að láta athuga þetta nánar með því að panta tíma hjá nýrnasérfræðingi eða ræða við heimilislækni þinn og láta hann hafa milligöngu um nánari athugun á þessu.
 
Með kveðju
Gunnlaugur Sigurjónsson,læknir