Bólur eftir rakstur

Fyrirspurn:


Góðan dag, mig langar að spyrja um það þegar ég raka bikinílínuna semsagt í nára, fæ ég oft rauðar upphleyftar bólur, hvernig get ég losnað við þetta

Aldur:
35 ára

Kyn:
Kvenmaður 

Svar:

Sæl

Þetta er vandamál sem flestar konur sem raka sig kannast við og verður þegar hárstubbarnir sem eftir verða eru svo hvassir og  erta húðina, valda roða og bólgu. Það verður svo til þess að hárið nær ekki að vaxa rétta leið upp í gegnum húðina og getur það valdið sýkingu og inngrónum hárum.

Þegar þú rakar nárahárin er gott að skrúbba vel á eftir með sápuðum grófum  þvottapoka og gera það fyrstu dagana í sturtunni á eftir meðan hárstubbarnir eru að vaxa upp úr hársekkjunum – það minnkar líkurnar á sýkingu og nær að hreyfa við stubbunum svo þeir vaxi rétt og bera svo mýkjandi krem á svæðið -til dæmis með kamillu sem róar húðina. Mikilvægt er að fara í sturtu daglega til að þvo alla húðfitu og svita burt.

Snyrtifræðingar þekkja vel þetta vandamál og geta örugglega leiðbeint þér líka.

Vonað að þetta komi að gagni.

Guðrún Gyða Hauksdóttir. hjúkrunarfræðingur