Spurning:
Við eigum 4 mánaða son sem var með frá fæðingu smá sýkingu í báðum augunum. Annað augað jafnaði sig sjálft á nokkrum vikum en hitt augað hefur ekki lagast þrátt fyrir að þegar hann var rúmlega 2 mánaða fékk hann dropa í augun (Fucithalmic). Það kemur alltaf smá gröftur í þetta auga og við erum búin að nudda augað eins og okkur var ráðlagt af hjúkrunarfræðingi í ungbarnaverndinni, og þvo það með soðnu vatni. Ég hef líka alltaf látið þær vita af þessu og þær hafa kíkt á augað en ekkert viljað gera meira. Okkur langar voða mikið að losna við þetta úr auganu hans, er eitthvað sem við getum gert eða verðum við bara að bíða?
Svar:
Komdu sæl. Þetta eru góð ráð og meðferð sem þið hafið fengið til þessa. Þetta er auðvitað afar hvimleitt ástand, en í langflestum tilvikum meinlaust og líklegt til að fara af sjálfu sér, líkt og með hitt augað. Ástæðan fyrir þessu er sú að það eru göng sem liggja úr augnlokinu niður í nefhol og er þeirra helsta hlutverk í framtíðinni að veita tárum úr augunum niður í nef. Í nýfæddum börnum hefur stundum ekki enn losnað um fósturhimnu sem kallast ,,Hasner himna", sem lokar göngunum nálægt nefholinu. Safnast því tár fyrir í göngunum og þá er eins og við manninn mælt – kjöraðstæður fyrir bakteríur sem líta á staðinn sem hið mesta gósenland. Því er hægt að beita sýklalyfjum, en þær koma alltaf aftur og aftur. Það er mjög gott að nudda svæðið inn af augnkróknum, það eykur þrýsting inn í kerfinu og kemur vökvanum á hreyfingu – e.t.v. flýtir það fyrir að það losni um himnuna. Í flestum tilvikum rofnar hún síðan og flæðir þá eðlilega niður í nefholið og sýkingarnar hverfa. Í einstaka tilvikum þarf að gera afar litla aðgerð í stuttri svæfingu á krílunum, en margir vilja bíða þar til barnið er orðið eins árs áður en það er gert – sjá hvort það lagist ekki af sjálfu sér. Í undantekningartilfellum er þó gerð aðgerð á yngri einstaklingum. Haltu áfram að láta fylgjast með honum og láttu augnlækni vita ef þetta lagast ekki. Gangi þér vel og bestu kveðjur, Jóhannes Kári.