Brennir maður áfengi hraðar ef drukkið er daglega?

Spurning:

Ég er 35 ára karlmaður og langar að vita hvort maður brennir ekki áfengi hraðar sé þess neytt á hverjum degi en ef neyslan einskorðast við helgar?

Brenna þeir sem stunda líkamlega erfiðisvinnu ekki áfengi hraðar en kyrrsetufólk?

Svar:

Lifur gegnir lykilhlutverki í umbreytingu áfengis. Þar eru sérstök hvatakerfi sem nauðsynleg eru til að koma ferli af stað sem endar með niðurbroti alkóhóls í orku og óvirk niðurbrotsefni. Þessi kerfi ná aðeins að umbreyta tilteknu magni af áfengi á tilteknum tíma. Þumalfingursreglan er sú að lifrin umbreytir því sem nemur einum drykk á klukkustund. Einn drykkur er u.þ.b. 30 ml af 40% alkóhóli. Það magn alkóhóls sem innbyrt hefur verið og lifrin nær ekki að vinna úr hringsólar um líkamann þar til lifrin nær að vinna úr því.

Hversu hratt lifrin getur umbreytt áfengi er einstaklingsbundið, erfðir skipta þar miklu máli en aðrir þættir svo sem kyn, þyngd og aldur skipta minna máli. Þessir þættir koma hinsvegar við sögu ásamt fleirum varðandi áhrif áfengis á heilann. Ef lifrin þarf stöðugt að taka á móti áfengi bregst hún þannig við að hún eykur framleiðslu efnahvata sem brjóta niður áfengi. Það getur hún einungis upp að ákveðnu marki og hafa verður í huga að á móti skerðist önnur mikilvæg starfsemi lifrarinnar. Umbreyting alkóhóls nýtur forgangs og önnur verkefni lifrarinnar sitja því á hakanum meðan verið er að vinna úr áfenginu.

Líkamleg áreynsla hefur ekki áhrif á starfsemi lifrarinnar hvað varðar umbrot áfengis og því skiptir kyrrseta eða erfiðisvinna ekki máli í því sambandi.

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir.