Spurning:
Góðan dag.
Ég er ung móðir sem á rúmlega 8 mánaða gamla stelpu. Hvernig á ég að kenna henni að sofna án þess að sofna hjá mér við brjóstið? Hún neitar því harðlega og grætur og grætur. Einnig á kvöldin þarf hún að sofna við brjóstið en það væri í lagi ef hún vaknaði ekki alltaf á nóttunni bara til þess að ég komi og ruggi henni eða taki hana í smá stund upp – þá er hún sofnuð um leið.
Ég er orðin svo þreytt því ég næ aldrei að sofa heila nótt. Ég hef reynt að láta hana gráta en hún grætur bara áfram og hærra ef ég kem ekki.
Vinsamlegast hjálpið með því að benda mér á ráð sem hugsanlega gætu hjálpað! Ég tek það fram að dóttir mín tekur ekki snuddu og sýgur ekki puttann.
Með von um einhverja hjálp
Hin þreytta örmagna móðir.
Svar:
Sæl, þreytta móðir.
Ég verð að byrja á því að hrósa þér fyrir að vera svona dugleg við brjóstagjöfina. Það er barninu þínu ómetanlegt veganesti út í lífið. En það er vissulega erfitt að vera með lítið barn sem vaknar oft á nóttinni. Það sem er að gerast hjá ykkur mæðgunum er svolítil valdabarátta. Þú vilt fara að verða dálítið frjálsari, en hún vill hafa hlutina eins og þeir eru vanir að vera. Hún hefur vanist því að þú leggist með henni og svæfir hana við brjóstið og að í hvert sinn sem hún vaknar fái hún brjóst til að sofna aftur. Þetta er mjög eðlilegt fyrir barnið og börn í stærstum hluta heims hafa þetta svona upp að 2-3 ára aldri. En þú býrð á Íslandi þar sem börnum er ætlað að sofa alla nóttina um leið og þau hafa ekki lengur þörf fyrir að nærast á nóttinni. Öll börn losa svefninn oft á hverri nóttu. Þau vakna þó ekki fyllilega og sofna yfirleitt fljótt aftur ef þau finna öryggi þess sem þau þekkja. Þín stelpa þekkir bara öryggið við að fá brjóstið og þess vegna getur hún ekki sofnað nema að fá sitt brjóst. Ég veit að þessar útskýringar leysa ekki vandann hjá þér en þær eru þó grunnurinn fyrir lausn vandans. Af bréfi þínu ræð ég að þú sért ein með stelpuna. Það flækir málið pínulítið – en gerir það þó ekki vonlaust. Vandinn er þó sá að ef þú hefur engan til að leysa þig af áttu erfiðara með að takast á við uppeldið vegna þreytu. Ef þú hefur einhvern sem getur tekið stelpuna í 2-3 tíma á dag í nokkra daga, meðan þú leggur þig, myndi það bjarga miklu fyrir þig. Þá getur þú betur tekist á við að koma skikkan á svefninn hjá barninu.
Þú hefur nokkra möguleika í stöðunni og fer valið eftir því hvaða uppeldisaðferð þú aðhyllist. Ef þú vilt hafa allt í röð og reglu, þ.m.t. svefntíma barnsins, þá verður þú líka að standa föst á þínu og hafa fasta skipan á matar og svefntímum (líka þínum). Þú getur líka spilað uppeldið “eftir eyranu” og lofað stelpunni að ráða sínum matar- og svefntímum.
Sjálfsagt fer þó best á að blanda saman röð og reglu og því að uppfylla óskir barnsins. Þú sjálf ert besti dómarinn á það hvað er virkileg þörf hjá henni og hvað má missa sín.
Ef þú treystir þér ekki til að lofa henni að sofa hjá þér á nóttinni (sem er varasamt ef þú reykir, sefur í vatnsrúmi eða notar sefandi lyf eða áfengi) þá legg ég til eftirfarandi:
Reyndu ekki að venja hana af brjóstinu á meðan þið eruð að ná sáttum um svefntímann. Það veldur henni sálrænu álagi sem ekki bætir úr næturvökunum, nema síður sé. Athugaðu líka að ef þú ert farin að vinna frá henni getur þessi næturvöknun tengst aðskilnaðarkvíða sem getur tafið fyrir að hún sofi á nóttinni. Þá er hún alltaf að kanna hvort þú sért þarna. Lofaðu henni að fá brjóstið eins og hún vill á daginn og vertu mikið með henni. Hafðu reglu á matartímunum hennar og gefðu henni áfram brjóstið fyrir svefninn. Gættu þess þó að hún sofni ekki á brjóstinu – taktu það út úr henni og reistu hana upp áður en hún nær að sofna. Farðu síðan með hana í rúmið sitt og leggðu hana blíðlega en ákveðið niður. Margir kjósa að biðja bænir með börnunum eða syngja eitt lítið lag áður en barnið fer að sofa. Sum börn hafa hjá sér bangsa eða eitthvað sem veitir þeim huggun og þá þarf það alltaf að vera til staðar fyrir barnið á svefntíma. Aðalatriðið er að þetta sé alltaf eins á hverju kvöldi. Flestum finnst líka gott að hafa lítið næturljós hjá barninu ef það sefur ekki í herbergi foreldranna. Þegar þú hefur lokið dagkránni yfirgefur þú stelpuna. Ef hún fer að gráta – ferðu inn til hennar og strýkur henni blíðlega, leggur hana síðan ákveðið niður og segir henni að hún eigi að fara að sofa, ferð síðan aftur fram. Þetta endurtekur þú þar til hún sofnar. Fyrstu kvöldin getur þú þurft að endurtaka þetta mörgum sinnum. Ekki láta hana g
ráta lengi – þá verður hún hrædd – en vertu ákveðin og taktu hana ekki upp úr rúminu. Smám saman styttist sá tími sem það tekur hana að sofna – oftast tekur það svona viku til hálfan mánuð að koma svefndagskránni á hreint.
Ef hún vaknar á nóttinni ferð þú til hennar og leggur hana blíðlega en ákveðið niður aftur og endurtekur það þar til hún sofnar. Hafðu hana með þykka bleiu þannig að þú þurfir ekki að skipta á henni og hafðu hana í léttum og þægilegum náttfötum. Ef hún svitnar mikið gæti hún verið þyrst og þá skaltu bjóða henni vatn að drekka úr glasi (ekki pela – það skapar nýtt vandamál), en bara einu sinni yfir nóttina. Vertu í bol eða einhverju sem ekki gefur henni færi á að koma nálægt brjóstunum. "Trikkið" er að aftengja samasemmerkið sem hún setur milli svefns og brjóstagjafar. Gættu þess að missa ekki stjórn á þér (hægara sagt en gert en alveg nauðsynlegt), haltu blíðlegu röddinni og mjúka klappinu þannig að hún finni að þótt hún fái ekki að koma til þín þá sért þú samt sama góða mamman.
Ef þú ert í sambúð getur verið betra að pabbinn sinni svefndagskránni því barnið tengir hann ekki við brjóstagjöf og því verður þetta ferli oft styttra hjá þeim.
Ef þetta dugar ekki – eða ef þú treystir þér ekki í þetta – þá geturðu leitað til barnadeildar Landspítala í Fossvogi (áður Borgarspítalinn). Þar er starfandi teymi sem sérhæfir sig í svefntruflunum barna. Hringdu bara á deildina og fáðu nánari upplýsingar.
Ég vona að þetta leysist allt á besta veg hjá ykkur.
Kveðja,
Dagný Zoëga, ljósmóðir