Brjósklos, doði þrátt fyrir sjúkraþjálfun

Spurning:

Ég er langhlaupari sem er búin að vera að eiga við brjósklos. Ég hafði verið með væga bakverki í ár eða tvö og síðan versnandi bakverki í einhverja mánuði og síðar kom einkennilegur doði í vinstri fót. Við áreynslu komu slæmir verkir í hné og utanvert framan á legginn. Þegar þessi doði kom niður í fótinn gat ég ekki lengur hlaupið og fór í myndatöku og í framhaldi af greiningu í sjúkraþjálfun.

Í niðurstöðu sneiðmyndatöku kemur eftirfarandi fram: Á milli L5-S1 eru deg. breytingar með aðeins þrengingu á foramena beggja vegna og diskurinn bungar breiðbasa posteriort og snertir S1 rótina vinstra megin.

Ég búin að vera í sjúkraþjálfun með togi, rafbylgjum og hinu og þessu í þrjá mánuði auk þess sem ég hef verið mjög dugleg að gera sérstakar bakæfingar og teygjur á hverjum degi. Ég hef auk þess gert allskyns æfingar sem ég treysti mér til ásamt því að síðustu tvo mánuði hef ég einnig treyst mér í spinning og get hjólað mikið án þess að það virðist breyta nokkrum um þrýstinginn í fætinum eða verkina í bakinu.

Ég orðin mun betri í bakinu sjálfu en þarf samt að gæta mjög vel að mér. Aðalmálið er að ég er enn með doða og þrýsting niður í vinstri fótinn sem virðist fara versnandi en er þó mjög misjafn. Þ.e. stundum verra, stundum betra, mjög sjaldan alveg laus við þetta. En þetta verður til þess að ég get ekki hlaupið og ekki gengið heldur með góðum móti vegna þess að við álag koma verkirnir í hnéð, hælinn og utanvert á legg og rist.

Hvað er til ráða til að koma þessu í lag?

Svar:

Lykillinn að svarinu við þessari spurningu fellst í orðalaginu „kippa þessu í lag". Flest leitum við að skjótum lausnum þegar eitthvað bjátar á og að sjálfsögðu væri það óskandi að þær væru fyrir hendi í fleiri tilvikum.

Einkennin sem þú lýsir eru líklega leiðniverkir frá bakinu og því miður held ég að ég geti ekki bent þér á neina hraðvirkari meðferð heldur en þú ert þegar í. Þú ert búinn að vera í sjúkraþjálfun í þrjá mánuði og þú getur búist við því að það taki 3-6 mánuði í viðbót þangað til þú ert búinn að ná þér að fullu. Það er mikilvægt að það sé ljóst hvert markmið sjúkraþjálfunarinnar er þegar verið er að endurhæfa eftir brjósklos, aðalmarkmiðið er að draga úr verkjum á því tímabili sem að brjósklosið grær sjálft. Einnig er leitast við að auka stöðugleika hryggsúlunnar með léttum æfingum. Það má líkja þessu ferli við það þegar maður verður fyrir áverka s.s skurði á hné, það er búið um hann, forðast að rífa upp sárið og reynt að halda verkjum í lágmarki en enginn býst við því að hægt sé að „kippa skurðinum í lag". Gangi þér vel í endurhæfingunni.

Kveðja,
Högni Friðriksson, sjúkraþjálfari