Brjóstagjöf – aðhaldsnámskeið

Spurning:

Halló.

Ég á tæplega 6 mánaða dóttur sem ég er með á brjósti. Ég bætti nokkrum kílóum á mig þegar ég gekk með hana. Mig langar að spyrja þig hvort það sé slæmt fyrir brjóstagjöfina að fara á aðhaldsnámskeið. Á svona námskeiðum er töluvert mikið aðhald í mataræði og svo náttúrlega mikil þjálfun.

Er einhver hætta á að maður missi mjólkina? Það vil ég alls ekki en mig langar virkilega að fara hreyfa mig almennilega.

Svar:

Sæl.

Það er e.t.v. skynsamlegra að fara bara í líkamsræktina til að byrja með og sleppa beinum megrunarkúrum þar til barnið er farið að borða meira af mat en það fær af brjóstamjólk. Ástæðan er sú að þegar við megrum okkur brotnar fitan niður og í fitunni situr mest af þeim eiturefnum sem við fáum í okkur dags daglega. Þess vegna er meira af eiturefnum á sveimi í blóðrásinni við megrun og þau skiljast þá í stærri skömmtum út í brjóstamjólkina. En þér er alveg óhætt að hreyfa þig töluvert áður en það fer að koma niður á mjólkurmynduninni. Vertu bara dugleg að þamba vatn áður en þú ferð í leikfimina, á meðan á henni stendur og þegar þú ert búin. Þú þarft 1 1/2 til 2 lítra af vatni aukalega þá daga sem þú stundar þjálfunina. Svo taktu bara á með góðri samvisku og það skilar sér í ánægðari og heilbrigðari mömmu fyrir litlu dóttur þína.

Gangi þér vel,

Dagný Zoega, ljósmóðir