Brjóstagjöf – barnið þyngist ekki nóg

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er með barn á brjósti sem er fætt 12. september og mér finnst allt ganga vel. Stúlkan sefur vel og er mjög róleg og góð en ljósmóðurinni finnst hún ekki þyngjast nóg. Hún þyngdist um 120 gr í síðustu viku, er það nóg eða þarf það að vera meira? Hvað er eðlilegt að börn þyngist mikið? Ég á fyrir tvo stráka sem gekk mjög vel að hafa á brjósti. Ég var með þá í 9 mánuði hvorn um sig.

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Yfirleitt er miðað við að börn þyngist að lágmarki um 150 g á viku fyrstu fjóra mánuðina. Það er þó viturlegt að horfa á heildarþyngdaraukninguna því ef stúlkan þyngdist kannski 250 g vikuna áður jafnar þetta sig út. Ef hún hins vegar þyngist að meðaltali svona um og undir 150 g væri henni hollara að drekka svolítið meira. Það getur munað einni gjöf á sólarhring eða verið spurning um 5-10 mínútum lengri gjöf í hvert skipti. Láttu þetta þó ekki eyðileggja ykkar góða samband og reyndu í lengstu lög að forðast það að byrja ábótargjöf, þá er stutt í að brjóstagjöfin eyðileggist. Bættu frekar við gjöfum eða lengdu tímann við brjóstið.

Gangi ykkur vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir