Brjóstagjöf: Exem á geirvörtum

Spurning:

Komdu sæl.

Þannig er mál með vexti að ég hef verið með slæmt Atopic exem í mörg ár sem kemur þannig fram að ég á það til að einhvers konar „brenna” á bringu hálsi og andliti og fæ við það mikil óþægindi.

Nú er ég svo slæm að mér var ráðlagt að taka inn Prednisólón í 10 daga en ég hef áður verið á því lyfi. Það sem mig langar til að vita er hvort það sé í lagi að taka þetta lyf á meðgöngu en ég er komin 6 mánuði á leið. Minn læknir fullyrti að það væri í lagi eftir 12 vikurnar en mig langaði í annað álit.

Annað mál er það að exemið leggst einnig á geirvörturnar á mér og ég mér tekst ekki að láta þær gróa. Hef prófað Lanisoh og AD græðandi og reynt að láta lofta. Ef þið hafið frekari ráð væri það vel þegið því ég sé ekki fram á að geta mjólkað þessu barni eins og staðan er.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Hvað varðar lyfjagjöf á meðgöngunni þá er viturlegast að fá álit læknis á því hvort það er óhætt. Læknar eru venjulega mjög varkárir í lyfjagjöfum fyrir barnshafandi konur og í þínu tilviki hefur hann væntanlega metið það svo að líðan þín og heilsa yrðu að ganga fyrir, sérstaklega þar sem talið er óhætt að taka lyfið eftir 12 vikurnar.

Hvað varðar brjóstagjöf með svona slæmt exem þá getur það verið vandkvæðum bundið þar sem munnvatn barnsins getur ýft það upp. Fyrst er þó að reyna að ná exeminu niður á geirvörtunum áður en barnið fæðist. Mér finnst hæpið að það gangi með öðru en sterakremum. Fáðu ráðleggingar um slík krem hjá húðsjúkdómalækninum þínum eða lækni í mæðravernd og byrjaðu strax að nota þau. Þegar barnið fæðist gætir þú svo prófað hvernig brjóstagjöfin fer með þig og reynt að halda þér góðri með Lansinoh kreminu. Ef það dugar ekki gætir þú prófað geirvörtuhlíf (mexíkanahatt) til að munnvatn barnsins ýfi síður upp exemið. Gættu þess þó að hlífin minnkar mögulega mjólkurmyndun vegna ónógrar beinnar örvunar svo það gæti borgað sig að mjólka þig einu sinni til tvisvar á dag til viðbótar við gjafirnar. Ef um allt þrýtur geturðu hugsanlega mjólkað þig og gefið móðurmjólkina með pela. En reyndu fyrst að fá þig góða fyrir fæðinguna og láttu svo bara á þetta reyna.

Gangi þér vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir