Brjóstagjöf – tekur ekki brjóst

Spurning:
Þannig er mál með vexti að ég á tveggja mánaða gamlan son sem ég hef enn ekki fengið til að taka brjóstið rétt. Hann virðist taka ívið of lítið uppí sig, ásamt því að sjúga of laust, og því heyrast stöðugit smellir og "söturhljóð" þegar hann drekkur. Ég hef sem betur fer ekki fengið sár en er þó oft aum í geirvörtunum. Getur svona vitlaus tækni við brjóstið ekki orðið til þess að erfitt reynist að halda uppi nægri mjólkurframleiðslu? Mér hefur fundist mjólkin hjá mér oft hafa verið aðeins of lítil upp á síðkastið, en ég tveggja ára son, sem einnig er á brjósti, og hjálpar hann mikið til við að halda framleiðslunni uppi.

Ég reyndi mikið fyrst að kenna þeim litla að sjúga rétt með því að láta hann sjúga á mér litla fingurinn, þá gat ég oftast fengið hann til að sjúga án smellhljóðanna, en það skilaði engu, ég ætti kannski að reyna það aftur. Eða er of seint að gera nokkuð þar sem hann er orðinn þetta gamall? Ég hef verið að reyna að ná brjóstagjafarráðgjafa á Landspítalanum en ekki tekist, og nú er hún komin í sumarfrí og verður næstu vikur.

Svar:
Það er ekki of seint að kenna drengnum að sjúga rétt og þetta með að láta hann sjúga fingur smástund fyrir gjöf hefur oft reynst afbragðsvel – það þarf bara að gera það fyrir hverja gjöf til að það virki almennilega.

Varðandi minnkandi mjólkurmyndun þá má eiga von á að mjólkin minnki ef brjóstin eru ekki sogin almennilega. Ég verð þó að lýsa áhyggjum mínum af því að eldri sonurinn fái brjóstið meðan sá yngri er ekki farinn að taka það almennilega. Yngra barnið verður að hafa forgang með mjólkina þína og er hætt við að hann nærist ekki nægilega vel ef sá eldri drekkur eitthvað að ráði úr brjóstunum.

Þótt erfitt sé að ráðleggja þegar ekki er unnt að sjá brjóstagjöfina og meta hvað má betur fara, þá tel ég út frá þeim upplýsingum sem ég hef að besta ráðið í stöðunni væri að þú létir þann litla hafa forgang næstu vikurnar og sá stóri fengi brjóstið bara þegar öruggt væri að sá litli væri búinn með allt sem hann nær úr brjóstinu. Notaðu finguræfinguna fyrir hverja gjöf litla drengsins og bjóddu honum brjóstið sem oftast. Það getur einnig verið gott að nudda kjálkana mjúklega fyrir gjafirnar. Það er ekki úr vegi að þú mjólkir þig eftir gjafir, bæði til að örva mjólkurmyndunina og einnig gætir þú þá gefið þeim litla aukmjólk með hjálparbrjósti þannig að gjafirnar verði lengri og áhrifaríkari. Það getur einnig orðið til þess að drengurinn komist betur upp á lagið við brjóstagjöfina. Reyndu að fá sem mesta hjálp heima fyrir þannig að þú getir einbeitt þér að því að kenna þeim litla að sjúga og reyndu að helga honum sem mest af þínum tíma. Gættu þess þó að þú sjálf verðir ekki alveg útundan, borðaðu vel og leggðu þig þegar þú getur. Svo skaltu endilega biðja brjóstagjafarráðgjafann að líta á ykkur þegar hún kemur úr fríi.

Vona að þetta fari allt vel

kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir