Brjóstamjólk og/eða þurrmjólk?

Spurning:
Ég á 7 vikna gamlan strák sem að fæddist 6 vikum fyrir tímann og var á vökudeild í rúmar 5 vikur. Brjóstagjöfin gekk ekki sem skyldi og fékk hann því alltaf pela með. Nú er hann komin heim og eftir mikla baráttu þá tók ég þá ákvörðun að hætta með hann á brjósti og gefa honum bara pela en þar sem að það skiptir mig miklu máli að hann fái brjóstamjólk þá hef ég mjólkað mig reglulega með mjaltavél og gefið honum þá mjólk.

Nú er svo komið að hann er farin að drekka svo mikið að ég mjólka eiginlega ekki nóg og hef þvi farið að gefa honum þurrmjólk með. Mig langir því að spurja þig, hvort að það hafi geti haft einhver slæm áhrif á eiginleika brjóstamjólkurinnar að blanda henni við þurrmjólk í pela og hita. Einnig hvort að það skipti einhverju máli í hvernig hlutföllum brjóstamjólk og þurrmjólk er blandað saman? Er kannski betra að gefa stundum bara þurrmjólk og stundum bara brjóstamjólk í stað þess að blanda þeim saman?

Svar:
Mér þykir þú dugleg að vera búin að mjólka þig allan þennan tíma fyrir drenginn. Þú mátt sko vera stolt af sjálfri þér.

Þar sem mjaltavélin sýgur ekki eins og barn er oft erfitt að halda uppi nægri mjólkurmyndun þegar til lengdar lætur. Það fer þó eftir því hversu oft og lengi konan mjólkar sig. Því oftar og lengur, þeim mun meiri mjólk. En svo þarftu líka að sinna barninu, fjölskyldunni og sjálfri þér og þá minnkar vitaskuld sá tími sem þú hefur til mjalta. En brjóstamjólkin er barninu holl, þótt hún minnki.

Hvað varðar blöndun mjólkurtegunda þá er það ekki ráðlegt. Brjóstamjólkin hefur einstæða eiginleika sem mögulega missa sín við að blandast þurrmjólkinni. Gefðu frekar þína mjólk eins og þú átt til og þurrmjólkina sem ábót á það. Þú ræður hvort þú safnar þinni mjólk og gefur heila máltíð með henni og notar þurrmjólkina í þær máltíðir sem þú nærð ekki fullri gjöf, eða notar það af þinni mjólk sem er til og gefur þurrmjólk þar sem vantar upp á. Það er ágætt að láta líða eins og hálftíma milli þess sem barnið fær þína mjólk og þurrmjólkina þannig að það nýti brjóstamjólkina sem best.

Vona að þetta gangi vel hjá ykkur.

Kveðja, Dagný Zoega,
ljósmóðir