Brjóstastækkun og brjóstagjöf?

Spurning:
Ég er farin að hafa mjög miklar áhyggjur vegna þess að fyrir 7 árum fór ég í brjóstastækkun (silikon) og nú er ég með 2 vikna gamla stelpu mína á brjósti, hún er mjög óróleg og ég er farin að ímynda mér allt hið versta. Læknirinn fullvissaði mig þó á tímabili um hættuleysi þessa tveggja hluta. Hafa verið gerðar rannsóknir á brjóstagjöf og brjóstastækkun? Ef pokinn er farinn að leka getur þá eitthvað borist út í mjólkina?

Svar:
Það er fjöldi kvenna sem hafa farið i brjóstastækkun og síðan hafa barn á brjósti án vandræði. Það er rétt að muna að stundum gengur erfiðlega að hafa barn á brjósti óháð því hvort móðir hefur farið í brjóstastækkun. Við brjóstastækkun er púðinn settur ýmist aftan við brjóstið og vöðvann, sem er algengast, eða aftan við brjóstið sjálft. Það er mjög óalgengt að púðar leki. Ef svo kynni að fara taka konur yfirleitt eftir að breyttu lagi á brjóstinu. Einnig að eftir að púðar eru settir myndast bandvefur utan um þá, einhverskonar umslag sem aðskilur púðann frá líkamanum. Ef púði lekur þá lekur hann inn í þetta afmarkaða hólf og það fer ekkert lengra. Ég vona að þessi vitneskja hafi róað þig, því þú þarft ekki að hafa áhyggjur.

Gangi þér svo bara vel.

Kveðja
Ottó Guðjónsson, lýtarlæknir.