Þrýstingur fyrir brjóstið og hjartsláttartruflanir

Spurning:

Sæll.

Ég er með eina spurningu og vonandi fæ ég svar. annig er mál með vexti að ég hef ekki hreyft mig í 2 ár en byrjaði á léttum æfingum fyrir 2 mán. Ég var í mjög góðu formi fyrir 2 árum, tek það fram. Ég átti barn fyrir 4 mánuðum og fitnaði töluvert á meðgönunni og fékk væga meðgöngueitrun. Þegar ég æfi (karate) fæ ég stundum svona þrýsting fyrir brjóstið eins og ég finni hjartað í mér hoppa til. Þá finn ég einnig fyrir hjartsláttartruflunum eða þess háttar sem er meira en lítið óþægilegt. Þetta virðist koma aðeins þegar ég er verulega streitumædd eða við líkamlega áreynslu. Ég reyki og mig langar til að vita hvort þessi einkenni þekkist meðal reykingarfólks og streitumæddra einstaklinga.

Með von um svar. Svar:

Sæl.

Margir finna fyrir aukaslögum frá hjarta sem langoftast reynist hættulaust. Streita og reykingar auka oft ennfrekar á þessi einkenni. Rétt er þó að ræða slíkt við lækni ef fólk finnur verulega fyrir þessu. Eftir fæðingu geta ýmis vanda mál með hjarta- og æðakerfið komið í ljós og eru reykingar þá ævinlega til bölvunar. Það kann því að vera best fyrir þig að tala um þetta frekar við lækninn þinn.

Kveðja,
Uggi Agnarsson, læknir Hjartavernd