Þunglyndi og framhjáhald?

Spurning:
Ég kom hingað á Doktor.is til að reyna að finna þunglyndispróf og var að taka eitt slíkt. Ég skoraði 55 stig en það er með því mesta sem hægt er að fá en samt var ég svona aðeins að reyna að gera ekki of mikið úr þessu. Ég vildi bara vita hvort að ég þarf að fara að leita mér hjálpar.

Ég nefnilega lenti í því að kærastan mín fór að halda framhjá mér. Ég vissi af þessu nokkurn veginn frá byrjun og hefur þunglyndi mitt varað í um 2 mánuði. Það lýsir sér þannig að ég hef dregið mig út úr daglegum störfum. Svo hef ég farið á fyllerí um helgar, en það gæti líka verið að orsaka þunglyndi þar sem ég er oft eitthvað súr eftir fyllerí. Ég veit ekki hvort þú vilt vita meira en alla vega þá er ég búinn að léttast um 6 kíló, hættur að gera allt og tala við fólk.

Er reyndar einstaklega jákvæður einstaklingur og því hefur mér þótt að þetta ætti bara að líða hjá, þegar ég jafnaði mig á framhjáhaldi kærustunnar. En það virðist ekkert alveg vera að ganga nógu hratt þannig að ég vildi spyrja hvort ég ætti að sækjast eftir einhverjum lyfjum eða gera aðrar ráðstafanir???

Svar:
Samkv. þínum lýsingum ættir þú að leita strax til sálfræðings eða geðlæknis. Vanlíðan hjá þér er greinilega farin að hafa áhrif á daglegt líf þitt og líkamlega heilsu. Það er samt rétt hjá þér að drykkja hefur mikil áhrif á tilfinningalíðan. Í þínu tilfelli er líklegt að hún viðhaldi þinni vanlíðan þó orsökin sé líklega önnur. Mikilvægt er að nýta það hversu jákvæður þú ert því það eykur líkurnar á fljótum og góðum bata. Sálfræðileg meðferð hefur sýnt góðan árangur á depurð og þunglyndi en í sumum tilvikum er nauðsynlegt að fá lyf. Í sálfræðilegri meðferð lærir þú að takast á við vandann með öðrum hætti en að fara á ,,fyllerí" og gerir þér auðveldara að takast á við seinni tíma vandamál.

Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
Laugavegi 43
s: 661-9068