Fyrirspurn:
Þannig er mál með vexti að ég eignaðist barn fyrir 8 mánuðum síðan og hef verið frekar niðri við undanfarið finnst mér. Síðustu mánuðina. Fyrst þegar ljósmóðirin lét mig fá spurningalistann 9 vikum eftir fæðinguna fékk ég 5 stig svo fékk ég að taka spurningarnar aftur og fékk 17 stig. Sem greinilega sýnir að ég hafi versnað. Ég hef fengið nokkur grátköst og kenni mér um allt nokkurn veginn, ef ég næ ekki að taka til og lítur ekki nógu vel út, eða fer að hugsa aumingja strákurinn minn að eiga svona mömmu. Ég fer að gráta útaf nánast engu finnst mér og veit eiginlega ekki af hverju. Ég er alltaf þreytt samt næ ég oftast í kringum 7 tíma svefn. Ég hef áhyggjur af öllu, er hann að fitna nóg, gef ég honum rétt að borða og nóg af mat, hugsa ég nógu vel um hann. Og jú svona hugsanir hljóta að vera eðlilegar upp að vissu marki.
Og ég elska hann útaf lífinu en finnst rosa óþægilegt að stundum langar mig bara ekkert að vera með honum fá bara að sofa út í eitt. Ég skil þetta ekki, hann er besta barn sem hugsast getur og sefur allar nætur skríkir og elskar lífið, af hverju líður mér þá svona.
En ég ákvað að leita ráða hjá ljósmóðurinni sem lét mig fá tíma hjá heimilislækni mínum og nú er ég farin að hugsa hvort að ég sé ekki bara að gera of mikið úr þessu og er orðin rosa kvíðin hvort að ég hefði átt að leita mér hjálpar þar sem núna eftir að ég fór til læknisins vildi hann láta mig á lyfið fentox og ég er núna komin með kvíða yfir því að fara á það því svo get ég kannski ekki hætt og ég vil ekki vera háð lyfjum. En samt langar mér að líða betur, en hvað ef ég er að gera mér þetta upp að einhverju leyti þá er það kannski ekki sniðugt.
Oh þetta er svo óþægilegt því partur af mér vill fara á lyfið og hugsanlega liður mér betur en svo kvíður mér fyrir aukaverkunum og því að vera háð hvað finnst þér að ég ætti að gera, heldurðu ekki að læknirinn hafi ávísað þessu lyfi af því að hann hélt að þetta myndi virka á mig? svo talaði ljósmóðirin einnig um að ég ætti að fara á lyfið og kannski að tala við geðhjúkrunarfræðing og jú það er ágætis hugmynd en þá kemur nýr kvíði, kvíði fyrir að hitta hana/hann.
Svo sá ég einnig á fylgiseðlinum að ein af aukaverkunum er kvíði og ég afber ekki meiri kvíða, á ég að spyrja hann út í þetta eða er það kannski svo sjaldgæft?
Ég hef verið svolítið kvíðin lengi, sem sagt fæ hnút í magann af minnsta tilefni svo er eins og þetta sé að aukast núna.
Svo er eitt annað ég hef í nokkur ár fengið svona mjög óþægilegar hugsanir sem ég tel vera áráttu og þráhyggjuröskun. Sem sagt ég fæ allt í einu hugsun um að ég hendi hundinum mínum út um bíl á ferð og þá er hún í fanginu á mér á ferð í bíl. Þetta skelfir mig rosalega því ég gæti aldrei nokkurn tímann gert henni mein. Og svo hef ég einnig fengið þessar hugsanir með son minn, roalega óþægilegt.
Hvað finnst þér að ég eigi að gera, á ég að prófa þetta lyf eða einhverjar aðrar aðferðir fyrst. En ég er að fara að vinna eftir fæðingarorlof eftir nokkrar vikur og fer svo að hugsa kannski lagast þetta þá en langar svo ekki að líða illa þar því mér líður alla jafna vel í vinnunni.
Er ég kannski að gera of mikið úr þessu?
Kv. Ein kvíðin
Aldur:
23
Kyn:
Kvenmaður
Svar:
Komdu sæl.
Ég er alveg sammála þínum heimilislækni og mæli eindregið með að þú takir lyfið Fontex. Mér finnst ákaflega líklegt að það hjálpi þér að ná þér á strik. Einkennin sem þú lýsir, depurð, þreyta, neikvæðar hugsanir og kvíði eru allt klassísk einkenni þunglyndis. Lyfið Fontex sem þú fékkst hjá þínum heimilislækni hefur hjálpað ákaflega mörgum og það eru fáir sem upplifa verulegar aukaverkanir af því. Hvað kvíða varðar, eru sárafáir sem fá aukin kvíða við töku á þessu lyfi, þvert á móti verkar það oft vel á kvíða. Þetta er ekki ávanabindandi lyf og í þínu tilfelli finnst mér ólíklegt að þú þurfir á því að halda til lengri tíma. Það eru fyrst og fremst þeir sem hafa upplifað endurtekið þunglyndi sem taka slík lyf að staðaldri. Þó mundi ég mæla með að þú takir lyfið í amk. hálft ár ef þú finnur góðan árangur.
Ef þér býðst að fara í viðtöl hjá geðhjúkrunarfræðingi mæli ég eindregið með því að þú gerir það. Það getur verið mjög gott að ræða líðanina og þær hugsanir sem sækja á þig. Það er vissulega margt sem breytist við móðurhlutverkið og þótt að flest sé afar ánægjulegt, þá fylgir því líka aukið álag. Það eru frekari breytingar fram undan þar sem þú ert að fara að byrja að vinna og þá breytist rútínan aftur og þótt vinnan sé að öllu jöfnu ánægjuleg, þá getur verið erfitt að púsla öllu saman, ekki síst þegar andleg líðan er ekki nógu góð fyrir.
Með bestu kveðju,
Halldóra Jónsdóttir geðlæknir