Þunglyndi – vantar lausn án lyfjameðferðar

Spurning:
Ég hef barist við þunglyndi frá unglingsaldri og verið stundum á lyfjum en mér hefur ekki fundist mikill munur á þeim, ennþá verið mjög hrygg og erfitt að gera flest hluti. Nú síðast hætti ég að taka inn lyf haustið 2001 og náði mér á réttan kjöl með hjálp líkamsræktar og einkaþjálfara. Á ekki fyrir þeirri leið að þessu sinni og ég finn að ég er að ,,detta niður'' og engin ástæða til því ég á yndislegt líf og er í mjög góðu sambandi.
Eigið þið einhverja lausn fyrir mig án lyfjameðferðar því mér finnst það ekki hjálpa mér? Ég stunda líkamsrækt en vegna hugarástandsins er mjög erfitt að mæta;; ég reyni að temja mér jákvæðni til að berjast gegn þessu en það er líka erfitt.
Hvað er til ráða hjá mér?
Geta náttúrulækningar hjálpað mér eitthvað?
Er þetta eitthvað efnaójafnvægi hjá mér?
Kær kveðja.

Svar:
Sæl.
Það er mjög gott að þú stundir líkamsrækt því það eykur orkuna til að takast á við vandann. Ástæður geðlægðar eru ekki alveg á hreinu. Líklegt er að um efnaójafnvægi sé að ræða en hvort það stafi af meðfæddum eða erfðafræðilegum þáttum eða sé afleiðing af ákveðnu hugsanamynstri er erfitt að segja til um. Líklegast er að þetta sé samspil líffræðilegra og sálfræðilegra þátta. Þunglyndislyf virka t.d. þannig að þau breyta hugsunum fólks. Nýlegar rannsóknir sýna einnig að sálfræðileg meðferð (hugræn atferlismeðferð) orsakar breytingar á boðefnakerfi líkamans. Líklegt er því að um samspil boðefna og hugsana sé að ræða í þunglyndi og fleiri geðröskunum. Ég veit því miður lítið um náttúrulækningar og get ekki ráðlagt þér með það en mæli með því að þú leitir til sálfræðings eða geðlæknis sem veitir viðtalsmeðferð.

Með kveðju
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
Laugavegi 43
s:661-9068