Þungun eða?

Spurning:
Ég er með hrikalegar áhyggjur og er að vona að þið getið hjálpað mér. Þannig er að ég var búin að vera með verki í rúma viku og hélt að ég væri bara að byrja á túr en ákvað svo að taka þungunarpróf og það kom strax jákvætt. Svo tók ég svo annað morguninn eftir. Ég hringdi strax í lækninn minn og fékk tíma strax. Hann sá eitthvað en ekki nóg til að greina og bað mig að koma eftir helgina í blóðprufu, sem ég gerði því hann vildi athuga hvort allt væri í lagi. Ég er búin að vera með svo hrikalegan verk neðarlega í maganum alveg síðan ég fattaði að ég væri ófrísk og svo er maginn á mér svo hrikalega þaninn og agalegt loft í mér. Brjóstin eru aum, ég er svo hrikalega hrædd um að það sé ekki allt í lagi. Er það eðlilegt að það taki svona langan tíma að greina þungunn? Viltu elsku læknir svara mér fljótt, ég er svo hrædd að ég sef ekki, hrædd um að þetta sé utanlegs fóstur. Ég þrái svo innilega að eignast þetta barn. Kveðja ein sem virkilega þráir…

Svar:
Það er nú algengur fylgifiskur meðgöngu að brjóstin verði aum, kona hafi væga túrverki og meltingin fari úr skorðum. En miklir verkir eru ekki eðlilegir og þú verður að láta rannsaka hverju þetta sætir. Þú gefur ekkert upp um hversu langt þú ert gengin í meðgöngunni en sé um utanlegsfóstur að ræða er hægt að greina það í sónar um 5. – 6. viku meðgöngu – þ.e. 5 – 6 vikum eftir fyrsta dag blæðinga.

Láttu líta á þig.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir