Spurning:
Kæri Doktor.is Fósturlát / utanlegsfóstur Fyrir þremur árum missti ég fóstur komin 11 vikur á leið. Ég fór í útskröpun og gekk í gegnum töluvert sorgarferli eins og eðlilegt er. Ég á fyrir dóttur sem er núna 11 ára og sú meðganga gekk frekar vel. Eftir að ég átti dóttur mínar var ég á lykkjunni Þar til fyrir þremur árum. Eftir fósturlátið fór ég aftur á lykkjuna en lenti í vandræðum með hana og lét taka hana um síðustu áramót. Þá varð ég strax ólétt aftur en missti það komin nokkrar vikur á leið. Síðan hef ég ekki notað neina getnaðavörn. Fyrir tveimur vikum gerði ég þungunarpróf sem reyndist jákvætt. Ég fór til kvennsjúdómalæknis sem skoðaði mig. Hann fann breytingar sem benntu til þungunar í leghálsinum en sá ekki neitt í sónarnum. Ég var send í blóðprufu og sú útkoma reyndist jákvæð og eðlileg. Til þess að sjá hvort að þróunin væri eðlileg mætti ég aftur fjórum dögum síðar. Sú útkoma reyndist ekki eins góð því aukningin á þungunarhórmónunum var ekki nægileg. Ég finn líka mjög litlar breytingar á mér. Er ekki aum í brjóstunum eða með ógleði eins í hinum þungununum. Ég fór síðast á bæðingar 16 ágúst. Reyndar hafði verið dálítil óregla á blæðingunum hjá mér um sumarið, sem hefur ekki gerst hjá mér áður. Nú er að verða komin vika frá því að ég fór í seinni blóðprufuna. Þungunarpróf sem ég gerði í morgun reynist enn jákvætt. En blæðingarnar láta á sér standa. Ég fæ stundum smá stingi en ég get ekki kallað það verki. Ég er að velta því fyrir mér hvort að það geti verið um utanlegsfóstur að ræða og hvernig sé best að bregðast við því. Ég er nefnilega búin að kaupa og borga fyrir afmælisferð til London, handa manninum mínum um miðja næstu viku. Finnst ekki góð tilhugsun að fara í rómantíska helgarferð með slíkt yfir mér. Hver eru einkennin þegar um utanlegsfóstur er að ræða og hvað er gert til að ná því án þess að það eyðileggi út frá sér. Nú er þetta í þriðja sinn á þremur árum sem ég missi fóstur. Þessi reynsla er orðin þungbær. Reyndar var fyrsta fóstulátið Þungun eftir fyrri manninn minn og pabba dóttur minnar. Í dag er ég í sambúð með öðrum manni. Hann er 32 ára og á ekki barn, ég er 35 ára og saman langar okkur að eignast barn. Hvað ráðleggur þú okkur að gera. Með kæru þakklæti og kveðju
Svar:
Utanlegsfóstur gefur oft engin sérstök einkenni fyrr en það fer að þrýsta vel í eggjaleiðarann um 6. – 7. viku. Hafir þú engin þungunareinkenni en lækkandi þungunarhormón í blóði er líklegast að um dulið fósturlát sé að ræða og skaltu strax hafa samband við lækninn þinn og fá ómskoðun til að skera úr um hvort fóstrið er til staðar og þá hvort það er lifandi. Sé um dulið fósturlát að ræða þarftu að fara í útskröpun svo þú skalt láta athuga þetta sem fyrst.
Ekki get ég gefið þér neinar sérstakar ráðleggingar til að ykkur takist að eignast barn saman en náir þú ekki að halda þungun næsta árið skaltu fá góðan kvensjúkdómalækni í lið með þér til að athuga hvort eitthvað finnst sem veldur fóstulátunum.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir