Spurning:
Ég nota linsur daglega og vinn á tölvu allan daginn. Oft er ég með blóðsprungin augu á kvöldin en það lagast yfirleitt um nóttina og ég er fín daginn eftir. Núna er ég búin að vera með töluvert mikið blóðsprungin augu í 3 daga og hef ég ekkert notað linsurnar í þessa 3 daga heldur verið með gleraugu. Hins vegar hef ég líka verið að vinna mikið á tölvu þessa 3 daga, þ.e. kannski hefur það áhrif. Annað sem ég hef tekið eftir er að ég tárast mjög auðveldlega, sérstaklega þegar ég er utandyra. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?
Svar:
Komdu nú sæl. Já, þetta er ákaflega grunsamlegt fyrir þurr augu. Þurr augu eru gríðarlega algeng og ekki margir sem vita af þeim, a.m.k. hér á landi. Til dæmis er algengasta orsök fyrir því að fólk tárast auðveldlega utandyra, líkt og þú lýsir, einmitt þurr augu. Snertilinsur gera oft illt verra, þar sem þær auka á þurrkinn og einkennin sem honum fylgja. Annað er það að þú vinnur við tölvu allan daginn. Þeir sem vinna við tölvu blikka 30% sjaldnar en þeir sem gera eitthvað annað svipaðs eðlis, s.s. að lesa. Þetta veldur því að tárin gufa frekar upp og augnþurrkur er geysilega algengur hjá þeim sem vinna við tölvur. Í þriðja lagi er oft þurrt vinnuumhverfi í kringum tölvur, mikið af pappír sem sýgur í sig raka, viftur í tölvum og öðrum rafmagnstækjum og hiti. Það er ástæða fyrir þig að kanna rakastigið í umhverfi þínu og reyna að breyta því. Í fjórða lagi lifum við á þurrum tímum nú á þorranum. Mætti þess vegna kalla hann þurra í stað þorra, og væri þá vísast að kalla vísuna góðu ,,Þurraþræl" í stað ,,Þorraþræl". Það er samt ,,en helt anden sag". Gervitár eru ákaflega heppileg fyrir þurr augu og getur þú notað þau með snertilinsunum. Ég mæli með gervitárum án rotvarnarefna. Ef það eitt og sér dugir ekki væri reynandi fyrir þig að skipta um snertilinsur eða sleppa þeim alveg. Snertilinsur með lágu vatnsinnihaldi eru heppilegri fyrir þá sem eru með þurr augu. Fyrsta skrefið væri auðvitað að leita til augnlæknis til að fá greininguna á hreint! Gangi þér vel og bestu kveðjur, Jóhannes Kári.