Þurr sáðlát?

Spurning:
Hvert er besta ráðið við það að fá ekki svokallaðar ,,þurrar fullnægingar"? Ég er rúmlega 20 ára gamall maður og ég fæ ekki sáðlát við samfarir… hver eru ykkar ráð við þessu?

Svar:
Greinarmunur er gerður á ,,þurrum sáðlátum" og ,,þurrum fullnægingum". Þurr sáðlát eiga sér ýmsar ástæður eins og t.d. lyfjanotkun, taugasjúkdómar og raskanir eða sjúkdómar í útfærslugöngum sæðisins. Einnig er unnt að hafa ,,öfugt sáðlát" þannig að sæðið sprautast inn í blöðruna við samfarir og því síðan pissað út með þvaginu í framhaldinu (aðallega eftir skurðaðgerðir). Það getur verið eðlilegt að sáðlátin verði minni við ,,miklar" sjálfsfróanir eða kynlífsiðkun dögum saman. Ef vafamál er hvort um sé að ræða sæði í vökvanum sem sprautast út við fullnæginu, þá er rétt að láta athuga sæðið, skila sæðisprufu. Hóflegt kynlíf er hins vegar afstætt fyrirbæri, en í þínu tilfelli væri rétt að huga að slíku og sjá til hvort þetta verði eðlilegt. Ef ekki, þá skaltu leita læknis.

Bestu kv.,
Valur Þór Marteinsson