Þurrar geirvörtur á meðgöngu?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég er komin um 15 vikur á leið á minni fyrstu meðgöngu og nú síðustu vikurnar hafa geirvörturnar farið að þorna upp og flagna. Ég hef getað haldið þurrkinum niðri með AD-kremi, en þetta er samt til staðar. Ég var að velta fyrir mér hvort þetta sé eitthvað sem fylgir meðgöngunni eða hvort þetta sé eitthvað annað, er eitthvað sem ég get gert í þessu eða verð ég bara að venjast þessu?

Kveðja, með fyrifram þökk.

Svar:
Þurrkur í geirvörtum eru nokkuð algengur og sjálfsagt að nota góð krem eins og AD krem til að halda honum niðri. Þó væri rétt fyrir þig að láta húðsjúkdómalækni líta á þetta því ef þetta er exem eða sveppasýking er vitaskuld best að það sé batnað áður en barnið fæðist og þarf að fara á brjóst. Eftir fæðingu er ekki æskilegt að nota AD-krem því það inniheldur A og D vítamín og er að auki mjög lykt- og bragðsterkt. Betra er þá að nota Lansinoh krem og það má líka nota á meðgöngunni.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir