Þvag og hægðavandi barna

Fyrirspurn:

Góðan daginn

Mig langar að spyrja hvað getur verið að og hvort það sé eitthvað hægt að gera.

Málið er að sonur minn sem verður 9 ára gamall núna í haust hann er mjög gjarn á það að vakna á nóttunni og pissar bara einhverstaðar á gólf, eins og við rúmið sitt og undir stiga á ganginum, það virðist vera mjög erfitt fyrir hann að finna klósettið á nóttunni því hann virðist bara ganga í svefni, hann opnar ekki augun þegar hann fer að pissa heldur labbar bara eitthvert og lætur vaða. Á daginn kemur svo oft fyrir að við finnum kúkalykt af honum svo við höfum spurt hann hvort það sé eitthvað í buxunum en hann neitar ítrekað en þegar við kíkjum hjá honum í buxurnar þá er oft svaka kúkur sem er orðin klesstur fastur við hann og hann segist ekki finna fyrir þessu eða vita afhverju þetta gerist.

Mig langar alveg rosalega til að vita hvað gæti verið að eða hvort þið eigið einhverjar ráðleggingar fyrir mig.

Maður finnur þegar eitthvað er að hjá börnunum sínum og mér finnst ekki allt vera í lagi hjá honum þó hann sé bráðgreindur og duglegur strákur að öðru leiti.

Bíð spennt eftir svari frá ykkur

Örvæntingarfull mamma

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þessi vandamál eru ótrúlegt en satt ekki svo óalgeng og hefur ekkert með greind barnsins að gera.

Varðandi þvaglátin á nóttunni þá er lykilatriði að átta sig á því að hann gerir þetta í svefni- hann vaknar ekki við að þurfa að pissa en undirmeðvitundin er þó það virk að hún segir honum að fara af stað. Hann er því í raun kominn einu skrefi frá því að pissa undir en nær ekki alveg að vakna.

Oft er svokölluð atferlismeðferð notuð við þess konar vanda. Það  er gert með því að vekja drenginn- reyna að láta hann ná á klósettið og ljúka sér af þar. Smá saman lærist það en það getur tekið tíma. Margir hafa notast við svokallaða næturþjálfa eða pissubjöllur í þessum tilgangi með góðum árangri en talsverða þolinmæði þarf því bjallan lætur hátt og það getur verið erfitt að fara á fætur um miðja nótt og vekja barnið í þessum aðstæðum en þetta virkar.

Varðandi hægðirnar þá þarf að koma reglu á þær. Hugsanlega hefur hann þjáðst af hægðatregðu og eða einhvern tíma verið sárt að kúka og tengir hann það við klósettið. Ég ráðlegg ykkur að panta tíma hjá barnalækni- og fá úr því skorið hvort um dulda hægðatregðu sé að ræða ( það getur alveg verið þó það komi stundum frá honum hægðir og þær séu ekki svo harðar). Barnalæknirinn getur gefið ykkur ráð um viðeigandi hægðalyf og salernisþjálfun í framhaldinu. Þetta er líka þolinmæðisvinna- að muna eftir að fara með barninu á klósett eftir máltíðir, fá hann (með góðu) til að sitja þar í smá stund og rembast. Oft er gott að hafa með lesefni þannig á klósettferðin verði jafnvel áhugaverð ( lesa fyrir hann bók sem vekur hjá honum áhuga – og hún er bara lesin á klósettinu). Muna svo að fagna og hrósa ef árangur næst ( piss og kúkur í klósett!!)

Eins og þú sérð á þessu langa svari þá er þetta ekki nýtt vandamál og vissulega hægt að leysa með góðri hjálp

Fyrsta skrefið myndi vera að hitta barnalækni sem leiðir ykkur svo áfram.

Gangi ykkur vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, Hjúkrunarfræðingur