Spurning:
Ég er með þrjár spurningar: Eru til tvær gerðir af þvagfærasýkingum. Ég hef t.d. ekki fundið mikið fyrir þegar ég fæ sýkingar en aðrir eru með mikla verki, stingi og sviða. Er blöðrubólga eitt og þvagfærasýking annað? Ég er stundum að fá verki núna og stundum stingi en síðast þegar ég fékk sýkingu hafði ég ekki hugmynd um það…frétti það bara af lækninum en það var samt frekar mengað þvagið en þá var ég að taka e-ð þvagræsalyf vegna þvagleka og hélt það stafaði af því. Svo er eitt annað. Hvernig virkar pergótime og auðveldar það manni til að verða ólétt, með því að taka pillur líka þegar maður er að reyna? ÞEtta er lyfseðilsskylt er það ekki?
Svar:
Í sjálfu sér eru til efri og neðri þvagfærasýkingar og er þá átt við það hvort sýkingin eigi sér rætur í nýrum (efri) eða þvagblöðru (neðri). Síðan eru til margar tegundir af þvagfærasýklum (bakteríum). Iðulega er jafnaðarmerki milli blöðrubólgu og þvagfærasýkinga og þá sérlega ef sjúklingur hefur sögu um slík veikindi og sýkingar hafa verið staðfestar með þvagræktunum. Hins vegar geta sjúklingar verið með bólgu í þvagblöðru án þess að vera með marktæka sýkingu og einnig gefa sumir sjúkdómar einkenni frá blöðru án þess að um eiginlega sýkingu sé að ræða. Að síðustu má nefna að til er sýklamiga í þvagi án einkenna. Hvað varðar Pergotime, þá er það frjósemislyf og getur örvað eggjaframleiðslu þegar egglos á sér ekki stað. Skoðun hjá kvensjúkdómalækni er nauðsynleg áður en meðferð hefst og er lyfið er aðeins fáanlegt með lyfseðli.
Bestu kveðjur,
Valur Þór Marteinsson, þvagfæralæknir