Þvagleki?

Spurning:

25 ára – Karl

ég er farinn að hafa mjög miklar áhyggjur af mér undanfarið. Ég er farinn að fá skellur og kláða í húðina, er alltaf þreyttur og hef lítið úthald Ég hef líka áhyggjur af því þegar ég pissa og stuttu eftir lekur alltaf smá þvag í nærbuxurnar og það kemur frekar vond lykt af mér. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera, hef leitað til læknist og þeir segja roðann og kláðann í húðinni bara vera flösuexem og gefa mér krem við því sem er engan veginn að virka og vilja svo engan veginn segja að þessi 3 atriði tengist.

Svar:

Sæll, svar mitt er þannig:

Ólíklegt verður að teljast að öll þessi einkenni tengist á nokkurn hátt og þá sérstaklega ekki lekinn hinum einkennunum. Hvað varðar eftirlekann, þá geta ýmsar skýringar verið á honum eins og t.d. að taka sér ekki nægilega góðan tíma til að tæma blöðruna, stundum þarf að bíða aðeins eftir síðustu dropunum, það getur verið munur á því að pissa standandi eða sitjandi og bólgur eða sýkingar geta skýrt svona sem og ónóg tæming á blöðru almennt talað. Unnt er að útiloka (eða staðfesta) alla þessa þætti með einfaldri skoðun hjá lækni.

Bestu kveðjur,

Valur Þór Marteinsson