Þvagleki eftir fæðingu

Spurning:

Komið sæl.

Ég hef grun um að ég sé með blöðrusig eftir fæðingu sem ég gekk í gegnum fyrir 5 vikum síðan, en þetta var mitt þriðja barn. Mikill asi var í fæðingunni þar sem hjartsláttur barnsins var óreglulegur og því þurfi ég að rembast mikið til að koma barninu í heiminn.

Ég hef verið að gera grindarbotnsæfingar en lítinn sem engan mun. Mig langar að vita hvað ég má gera ráð fyrir að eiga í þessu lengi áður en æfingarnar fara að bera árangur og hvað er æskilegt að ég geri æfingar oft á dag?

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Það er fremur algengt að konur finni fyrir þvagleka eftir fæðingu og þarf það ekki endilega að tengjast blöðrusigi. Það getur verið vegna slappleika í grindarbotni eða þvagfærasýkingar. Ef þú hins vegar finnur stöðuga þyngslatilfinningu ofan í grindarbotn, lekur mikið þvagi og finnur jafnvel fyrir blöðrunni inni í leggöngum getur verið um blöðrusig að ræða. Ef eingöngu er um þvagleka að ræða geta grindarbotnsæfingar hjálpað en stundum þarf að hengja blöðruna aftur upp til að vandamálið leysist. Mörgum konum gengur betur að liggja á maganum þegar þær gera grindarbotnsæfingarnar meðan þær ná upp betri styrk. Reglulegar grindarbotnsæfingar hjálpa blöðru og legi að koma sér fyrir í grindarholinu eftir fæðinguna, en það getur tekið margar vikur þar til grindarbotn er fyllilega gróinn og hefur náð fyrri styrk.

Haltu áfram grindarbotnsæfingum en farðu jafnframt sem fyrst til kvensjúkdómalæknis og láttu skoða hvað er hér um að vera.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir