Spurning:
Getur inntaka á C-vítamíni valdið höfuðverk?
Svar:
Já, mikil neysla á C-vítamíni í fæðubótarformi getur leitt til höfuðverkja.
Það er vitað að líkami okkar þarf aðeins um 10 mg af C-vítamíni á dag til að fyrirbyggja hörgulsjúkdóminn skyrbjúg. Þegar neysla vítamínsins er um 100 mg er frumum í líkama flestallra heilbrigðra einstaklinga ómögulegt að taka til sín meira af vítamíninu svo að það sem umfram er skolast að öllu jöfnu úr líkamanum. Ástæðan er sú að ef við neytum meira magns vatnsvítamína – C-vítamín og B-vítamín – en við þurfum, munu þau í flestum tilfellum hverfa með þvagi. Efalaust kannast sumir við fagurgult og lyktarsterkt þvag í kjölfar mikillar neyslu þessara efna. Það kemur vísindamönnum ekki á óvart að tíðni eitrunaráhrifa vegna ofneyslu á C-vítamíni fer vaxandi, sér í lagi meðal þeirra sem neyta 8.000 mg eða meira af efninu á dag. Möguleg eitrunaráhrif eru höfuðverkur, mikil þreyta, svefnleysi, ógleði, magakrampi, niðurgangur, svitakóf og útbrot á hörundi.
Hjá einstaklingum sem hafa tilhneigingu til myndunar þvagsýrugigtar og hjá þeim sem hafa af erfðafræðilegum ástæðum afbrigðilegheit með tilliti til niðurbrots á C-vítamíni aukast líkur á myndun nýrnasteina. Einnig getur mikil óhófsneysla vítamínsins leitt til eitrunaráhrifa vegna of mikil járns í blóði en C-vítamín bætir upptöku járns í blóð.
Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur