covid

Hvernig lýsir það sér ef maður fær covid í stórum dráttum

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina.

COVID-19 sýking hefur mismunandi áhrif eftir einstaklingum. Flestir fá væg eða miðlungsmikil einkenni og ná bata án þess að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.

Helstu einkenni COVID-19 sýkingar svipa til einkenna flensu. Þau geta verið hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Einnig geta meltingareinkenni (ógleði, uppköst eða niðurgangur) og breyting eða tap á lyktar- og bragðskyni komið fram.

Eftir að jákvætt PCR-próf liggur fyrir segja núgildandi reglur að einangrun standi yfir í 7 daga, þar sem dagur niðurstöðu úr PCR-prófi er dagur 0. Læknar göngudeildar geta þó lengt einangrun eftir læknisfræðilegu mati.

Einangrun fer fram í heimahúsi eða á sóttvarnarhóteli, sé þess óskað og  á að halda sig alfarið frá öðru fólki. Þó er nú heimilt að fara í tvær gönguferðir á dag í nágrenni við heimili sitt í 30 mínútur í senn og passa að halda 2 metra fjarlægð frá öðrum.

Ef þú ert í einangrun og ferð að finna fyrir alvarlegum einkennum eins og öndunarerfiðleikum, skertu tali/hreyfigetu, ringlun eða brjóstverkjum leitaðu þá strax til læknis en mikilvægt er að hringja á undan sér.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Auður Hávarsdóttir, hjúkrunarfræðingur.