Daginn-eftir pillan

Spurning:
Mig langar svo að fá að vita hvort daginn eftir pillan geti skaðað fósturvísi ef hún er tekin þegar getnaður hefur átt sér stað. Nú er sagt að það sé í lagi að taka hana innan 72 klukkustunda, en best sem fyrst. Hvað ef þungun hefur átt sér stað? Eyðist þetta líf þá? Eða er möguleiki á að hún hafi einhver áhrif á þroska þessa lífs sem hefur kviknað, t.d. seinna á meðgöngu uppgötvist alvarlegur hjartagalli?
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Hinni svokölluðu ,,daginn eftir pillu" er ætlað að minnka líkur á egglosi og koma í veg fyrir að egg sem hefur mögulega náð að frjóvgast geti fest sig í slímhúð legsins. Ekki er beint verið að eyða lífi þar sem eggfruman er ekki lífvænleg ef hún nær ekki að festast við legslímhúðina. Sé pillan tekin of seint er möguleiki á að egg sem búið er að taka sér bólfestu nái ekki áframhaldandi þroska og hverfi með næstu tíðablæðingu en ef fósturþroski nær að halda áfram hefur ekki verið sýnt fram á að þau fóstur sem verða til þrátt fyrir þessa lyfjagjöf bíði af henni skaða.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir