Fyrirspurn:
Kæri lesandi,
Ég er búin að vera á Depa provera í um 2 ár, þó hef ég tekið mánaðarpásu á milli skammta. Ég hef verið að lesa núna á upplýsingablaðið sem fylgir lyfinu og þar er talað um að þetta lyf auki líkur á brjóstakrabbameini og að langan tíma geti tekið að vera óléttur eftir notkunina. Þarf ég að fara reglulega í tékk á meðan ég er á þessu lyfi?
Spurning 2. Ég átti barn fyrir um 3 árum og gekk meðgangan mjög ílla. Ég léttist um 12 kíló og lá mikið á spítala með næringu í æð vegna þess hve mikið ég ældi. Ég var farin að rugla á tímabili og var ekki með sjálfri mér. Ég hef orðið ólétt 3 sinnum á minni ævi og ég hef farið 2x í eyðingu vegna þess að ég verð svo veik . Nú er ég og maðurinn minn farin að fá löngun að eignast annað barn svona á komandi ári en ég þori ekki að verða ólétt. Gæti ég fengið einhver lyf til að auka líkur á fjölburafæðingu til þess að ég þurfi ekki að ganga í gegnum þetta í mörg skipti ? Getur liðið langt frá því að ég get orðið ólétt eftir notkun á Depo Provera?
Ég vona að þú hafir svör fyrir mig því ég hugsa of mikið um þetta á daginn
eEð fyrirfram þökk,
Ein hugsi
Aldur:
24
Kyn:
Kvenmaður
Svar:
1. Depo Provera eykur hættuna á brjóstakrabbameini mjög óverulega. Það á því ekki að þurfa að fara í neitt frekara eftirlit en mælt er með af hálfu krabbameinsfélagsins, það er brjóstamyndataka frá 40 ára aldri. Hins vegar er það góð regla að þreifa brjóstin sjálf reglulega öðru hvoru og láta skoða betur ef einhverjar breytingar verða.
Hvað varðar endurheimtingu frjósemi eftir lok meðferðar með Depo Provera þá er það mjög einstaklingsbundið hve langan tíma það tekur. Samkvæmt upplýsingum úr sérlyfjaskrá er það að meðaltali 10 mánuðir sem líða þar til frjósemi er endurheimt. Breytileiki er samt mjög mikill, getur verið frá 4 mánuðum og upp í 31 mánuð frá síðustu gjöf Depo Provera.
2. Það er almennt ekki mælt með að nota frjósemislyf til að auka líkur á fjölburafæðingum. Fjölburameðgöngur eru bæði börnum og móður erfiðari og meiri hætta er á að vandamál komi upp á meðgöngu. Ég myndi því eindregið ráða frá notkun frjósemislyfja í þessum tilgangi. Það er hægt að nota ýmis lyf á meðgöngu til að draga úr ógleði og uppköstum. Í ljósi þess hve erfið síðasta meðganga var þá ættir þú að ræða við þinn kvennsjúkdómalækni um eftirlit og meðferð á verðandi meðgöngu þegar þú ákveður að hætta á Depo Provera og stefnir á að verða ófrísk.
Það er mikilvægt við langtímanotkun á Depo Provera að gæta þess vel að taka kalk og lýsi til að minnka líkur á beinþynningu af völdum hormóna þeirra sem í sprautunni eru. Hreyfing minnkar einnig líkur á beinþynningu.
Kveðja
Gunnlaugur Sigurjónsson
Læknir Heilusverndarstöðinni.