DNA

Góðan daginnn ég á von á mínu fyrsta barni núna 2021, það koma mögulega fleiri en einn til Greina er ekki í sambandi, er einhver leið að sjá það meðan ég geng með barnið þá í gegnum blóðflokkana eða Þarf ég að bíða.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Það er í sumum tilfellum hægt að nýta þekkingu í erfðafræði til þess að sjá hvort blóðflokkur barns stemmi við blóðflokk lýsts föður. Þetta er þó ekki nægilega nákvæm aðferð til þess að veita áreiðanlega niðurstöðu. Slík rannsókn væri því á engan hátt óyggjandi niðurstaða ef svo skyldi vera að meintur faðir vilji ekki gangast við barninu.

Tæknin er vissulega til staðar til að greina faðerni með DNA rannsókn á meðan meðgöngu stendur, en eins og staðan er í dag er þetta ekki valkostur hér á landi, hér er ávallt beðið þar til barn er fætt.

Á Íslandi er tekið blóð úr naflastreng barns við fæðingu sem er síðan geymt fyrir faðernisrannsókn og þarf þá lýstur faðir einnig að gangast undir blóðrannsókn. Þetta er töluvert kostnaðarsamt ferli og kostar það frá 280 þúsund krónum, eftir fjölda sýna. Einnig er hægt að nýta sér þjónustu erlendra fyrirtækja til faðernisrannsóknar með DNA og er þá sýnatökupakki keyptur beint á netinu, svo sem hjá dnatest.dk. Slík rannsókn er umtalsvert ódýrari (25-50 þúsund krónur) en er þó áreiðanleg samkvæmt forstöðumanni faðernisprófa á Landspítala, svo lengi sem verslað er við fyrirtæki með gæðavottun.

Ég hvet þig eindregið til þess að ræða þetta við þína ljósmóður sem getur leiðbeint þér frekar. Best er að óska eftir naflastrengsblóðsýni við ljósmóður fyrir fæðingu, þrátt fyrir að ákvörðun hafi ekki enn verið tekin um hvaða leið skuli fara í faðernisgreiningu. Þannig er sýni frá barninu til staðar ef þörf er á því seinna meir. Ef um ósætti er að ræða við feðrun er best að fara beint með málið til sýslumanns eftir barnsburð, sem hefur þá milligöngu milli móður og lýsts föður við faðernisrannsókn.

Að lokum óska ég þér innilega til hamingju með komandi erfingja og óska þér góðs gengis.

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur