Dóttir mín er með mjólkuróþol

Spurning:
Dóttir mín er með mjólkuróþol en er enn á brjósti, mig langar að fá ráð um hvernig ég á að ,,venja" hana af óþolinu og hvernig ég veit hvort hún er að lagast eða ekki. Ég hef heyrt að börn séu uppundir 3 ára aldur að vinna úr þessu óþoli, vonandi skilst hvað ég er að tala um, mér finnst ég hálf úrræðalaus og að það sé mjög fátt sem ég get gefið henni að borða, hún er nýfarin að fá tvisvar að borða á dag, þá aðallega soyajógúrt og krukkumauk.

Svar:
Það eru litlar líkur á að þú getir ,,vanið" dóttur þína af mataróþoli. Það sem þú getur hins vegar gert er að verja hana fyrir þeim fæðutegundum sem hún þolir ekki og vona að óþolið eldist af henni. Þær fæðutegundir sem oftast valda óþoli eru mjólkurvörur, fiskur, egg, sítrusávextir, ber, hveiti og hnetur. Kjöt og flestar grænmetistegundir (sérstaklega soðnar) valda hins vegar sjaldan óþoli og eins er oftast í lagi að gefa börnum mjölgrauta og brauð. Soya getur valdið óþoli og þú ættir ekki að nota það í óhófi. Það er gott að dóttir þín er á brjósti, það dregur úr einkennum óþolsins og gefur henni ómetanlega næringu. Haltu endilega áfram með hana sem lengst á brjósti þannig að hún fái þína mjólk í stað kúamjólkurinnar sem hún þolir ekki. Bíddu fram yfir eins árs aldurinn með að prófa hvort óþolið er farið af henni og dragðu strax í land með mjólkina ef hún sýnir þess einhver merki að þola hana ekki. Vertu svo í góðu sambandi við barnalækninn sem greindi þetta hjá henni og fáðu nánari ráðleggingar hjá honum. Hann er e.t.v. með næringarráðgjafa á sínum vegum sem getur leiðbeint ykkur.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir