Dóttir mín kvíðir fæðingunni?

Spurning:
Dóttir mín, 17 ára, gengur með sitt fyrsta barn sem hún á að eiga seint í mars 2004. Hún kvíðir verulega fyrir fæðingunni og fær martraðir á næturnar. Þá dreymir hana gjarnan fæðingar sem takast illa og allt fer á versta veg. Hvað getur hún gert til að vinna bug á þessum ótta? Er einhver leið til að létta henni lífið að þessu leyti?
Með kveðju og þökk.

Svar:
Það getur verið erfitt að vinna bug á fæðingarkvíða og ekki bæta nú amerískar kvikmyndir með æpandi konum og stressuðum læknum úr þeirri ímynd sem ungar konur fá af fæðingum. Vonandi lagast kvíðinn eftir því sem á meðgönguna líður – oft er það dálítið áfall fyrir svo ungar konur sem dóttir þín er að verða barnshafandi og það getur haft áhrif á sálartetrið sem svo kemur streitunni áfram í draumana á nóttinni og veldur kvíða. Best væri sjálfsagt fyrir dóttur þína að ræða kvíðann við ljósmóðurina sem annast hana í mæðravernd og fara á gott fæðinganámskeið hjá ljósmóður, t.d. á Heilsuverndarstöðinni eða hjá Magna Mater. Þar hittist fólk sem er allt að ganga í gegn um þessa reynslu og það getur verið mjög gott að hitta aðra í svipaðri aðstöðu og maður er sjálfur og fá tækifæri til að viðra líðan sína og fá fræðslu og stuðning. Svo skiptir stuðningur ykkar foreldranna náttúrulega gífurlega miklu máli og dóttir þín er heppin að eiga föður sem lætur sér svona annt um líðan hennar. Vona að þetta fari allt á besta veg.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir