Dóttir mín sýgur puttann, en vill ekki snuð

Spurning:

Kæra Dagný.

Ég á dóttir sem er 4 mánaða, en þegar hún var í kringum þriggja mánaða fór hún að sjúga þumalputtann. Er ég nú búin að reyna að láta hana taka snuð en lítið gengur, hef ég reynt NUK snuð og PUSSYGAT snuð. Eru til einhver ráð og hver eru þau? Er algengt að börn geri þetta? Þetta var fjórða dóttir mín og hefur bara ein þeirra tekið snuð. Eitt að lokum, litla daman mín sem er nú 4 mánaða var mikið kveisubarn, hún byrjaði 1 mánaða og hætti u.þ.b. 3 og hálfs mánaða. Mér finnst svo mikil óregla á svefninum á henni. Á kvöldin þarf ég að sitja með hana og vera með henni alltaf, og líka þegar hún fer út að sofa. Hún er alltaf að vakna á þessum tveimur tímum sem hún sefur úti og ég þarf að rugga henni svona þrisvar sinnum. Ég hef átt tvær aðrar sem voru með magakveisu en mér finnst ekki hafa verið svona mikil svefnóregla á þeim. Ég vona að þú getir gefið mér einhver svör því mér finnst ég svo þreytt á þessu ástandi, því maðurinn minn er sjómaður og hinar stelpurnar eru bara 4, 7 og 11 ára.

Með kærri kveðju.

Svar:

Sæl.

Öll börn hafa sogþörf og vitaskuld er best ef þau nota sogið sem mest á brjóstið meðan þau eru á brjósti. Þú getur þess reyndar ekki að svo sé. Það er ekki óalgengt að börn sjúgi fingur þótt yfirleitt geri þau það frá fæðingu en byrja ekki á því svona seint. Var eitthvað sérstakt á seiði þegar hún byrjaði á þessu? Kannski breyting á fæðumynstri, minnkandi brjóstagjöf, truflanir vegna eldri systkina, aukið vinnuálag hjá þér? Allskyns aðstæður geta valdið börnum óróleika sem þau svara með aukinni sogþörf. Að hún tekur frekar þumalinn en snuð er bara hagræði fyrir hana, hann er þarna til staðar og hún getur sjálf stjórnað því hvenær hún sýgur. Ókosturinn við fingursogið er vitaskuld sá að ekki er hægt að taka fingurinn af barninu eins og snuðið. Ef þú ert alveg ákveðin í að venja hana á snuð gefst oft best að halda sig bara við sömu tegund snuðs og bjóða það þegar barnið vill sjúga, þ.e.a.s. milli mála og ef það er örugglega ekki að fara að drekka.

Hvað varðar óregluna á svefninum þá er svo sem fátt til ráða annað en þolinmæði og reglusemi. Þú ert væntanlega búin að fara með hana til læknis til að útiloka eyrnabólgu og þvagfærasýkingu. Ef hún er hraust og ekkert að hjá ykkur er hugsanlegt að þú hafir bara fengið þarna nýja útgáfu af barni ólíka því sem hinar dætur þínar voru. Svefnþörf og svefnmunstur eru mjög mismunandi milli einstaklinga og persónuleiki fólks hefur mikið að segja um hvernig það bregst við áreiti. Kannski er litla dóttir þín hátt stemmdur karakter sem þarf stöðugleika og festu til að slaka á. Þannig fólki finnst best ef allir dagar eru eins og þolir oft lítið áreiti. Kannski finnur hún til óöryggis við að sofa úti í vagninum og myndi líða betur inni í sínu rúmi. Ef þú getur haft kvöldregluna eins á hverju kvöldi gæti það líka hjálpað. Reyndu að fá stærri stelpurnar í lið með þér til að halda ró og reglu og sjáðu hvort sú litla öðlast ekki öryggi og verður meðfærilegri. Þú þarft líka að hugsa um sjálfa þig. Þreytt mamma getur smitað pirringi til barnanna því þau eru svo næm. Hvað með að fá pössun fyrir stelpurnar og fá þér dekurdag? Það er nauðsynlegt að eiga smá tíma fyrir sjálfa sig endrum og sinnum – bara til að halda sönsum og hafa orku fyrir allt mömmustússið. Notaðu fólkið í kringum þig – biddu um aðstoð. Flest fólk er ánægt með að geta aðstoðað.

Gangi þér vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir