Dóttir okkar er að gera útaf við okkur?

Spurning:
Góðan daginn.
Við erum í vandræðum með dóttur okkar, hún er tveggja og hálfs árs og er alveg að gera útaf við okkur. Þannig er málið að hún er rosalega sjálfstæð og verður að gera allt sjálf og ráða öllu. Ef við gerum eitthvað öðruvísi en hún vill þá verður hún alveg brjáluð – bókstaflega, þó það sé ekki nema það að við setjum hana í önnur útiföt en hún vill. Ég hef sent inn fyrirspurn áður og við höfum reynt allt, þar á meðal að tala rólega við hana þegar hún er annaðhvort brjáluð eða að róa sig niður en allt kemur fyrir ekki í besta falli þá lemur hún okkur bara. Núna erum við alveg strand og það liggur við að manni kvíði fyrir því að sækja hana á leikskólann.

Tvö nýleg dæmi: Við fórum í Kringluna og þegar við ætluðum útí bíl þá vildi hún að pabbi sinn myndi setja hana inn en þar sem ég var byrjuð þá neitaði ég bara og hélt áfram að reyna að setja hana inn og þar sem að hún veit að mér finnst rosalega vont þegar rifið er í hárið mitt þá reif hún eins fast og hún gat í hárið á mér sitt hvorum megin á meðan ég var að reyna að setja hana í stólinn sinn. Það endaði auðvitað með því að ég gafst upp af því að ég réð ekki við hana og pabbi hennar kom til að hjálpa mér og loksins þegar hún var komin í stólinn eftir að pabbi hennar var búinn að slást við hana í dágóðan tíma þá grenjaði hún alla leiðina heim og það er um korters akstur. Svo má einnig geta þess að þegar pabbi hennar kom þá var hún nánast búin að flækja sig í hárinu á mér hún var svo ákveðin!
Svo var það annað; einn morgunin þegar við vorum að klæða hana í útifötin þá var hún ekki sátt og vildi fara í önnur útiföt og við neituðum og þá brjálaðist hún og hljóp viljandi á næsta vegg!!

Við erum alveg að gefast upp, hún hlustar ekkert á okkur lengur og gerir bara það sem henni sýnist og dagurinn einkennist af öskrum og gráti. Reyndar er gott að taka það fram að hún eignaðist bróðir fyrir 8 mánuðum síðan en við höfum alltaf passað okkur á því að sýna þeim jafnmikla athygli og t.d þegar hann hefur fengið gjafir frá ættingjum þá hefur hún alltaf fengið gjafir líka. Og hún passar rosalega vel uppá hann, segir við alla að hún eigi hann og það má enginn ókunnugur koma nálægt honum. Það er fyst núna sem við tökum eftir smá afbrýðissemi hjá henni en hún hefur lengi verið svona rosalega frek, eða eins og sumir vilja kalla það ákveðin. Ef þú getur eitthvað hjálpað okkur eða bent á einhvern sem getur það þá væri það alveg rosalega gott, við erum búin að reyna flest allt og þolinmæðin er alveg á þrautum svo ekki sé minnst á hvernig þetta fer með samband okkar.

Tvö ráðalaus

E.s hún er algjör engill á leikskólanum!

Svar:
Komið þið sæl. Leitt að heyra af þessu erfiða ástandi á heimilinu.

Ég held að þið ættuð að grípa til einhverra úrræða sem fyrst áður en þetta fer algjörlega með geðheilsu ykkar og samband. Ég mæli með því að þið leitið til sálfræðings sem kann eitthvað fyrir sér í atferlismeðferð. Hún felst í því að atferlið er skoðað nákvæmlega (óþekktin), við hvaða aðstæður hún kemur helst fram (greinilega á heimilinu) og hver viðbrögð ykkar foreldranna eru. Síðan er reynt að grípa inn í með markvissum og ákveðnum hætti, það eru tekin upp ákveðin prógröm (ný viðbrögð ykkar við óþekktinni) sem þið foreldrarnir verðið að fara eftir til að hafa einhvern hemil á dótturinni. Síðan er fylgst áfram með hegðuninni og ef hún minnkar ekki eftir ákveðinn tíma (oft eykst slæma hegðunin til að byrja með) þá er gripið til nýrra ráða þar til lausn er fengin. Svona meðferð er tiltölulega einföld en það tekur samt tíma og fyrirhöfn að koma henni á koppinn ef vel á að vera. Þið sjáið þó ekki eftir þeim tíma sem fer í að laga þetta þegar sigur er í höfn.

Með kveðju
Reynir Harðarson sálfræðingur
S: 562-8565