Doxýcýklín og meðganga?

Spurning:
Sæll/sæl.
Ég er nýbúin að komast að því að ég sé ólétt 🙂 en er eins og er að taka lyfið Doxýtab. Getur lyfið haft skaðleg áhrif á fóstrið eða meðgönguna? 
Með fyrirfram þökk, ein í vanda

Svar:
Doxýcýklín safnast fyrir í beinvef í vexti og hemur lengdarvöxt leggjanna. Doxýcýklín sest einnig í tennur í myndun, veldur mislitun á þeim og göllum í glerjungi. Þar sem doxýcýklínin kemst í gegnum fylgjuna í svo miklu mæli, að hætta er á skaðlegum áhrifum á fóstur, ber að forðast notkun þess í þann tíma sem tennur myndast og bein vaxa, þ.e. síðari helming meðgöngutímans (og hjá barninu frá fæðingu þar til það er orðið 8 ára). Þessi texti er úr Sérlyfjaskrá. Þetta þýðir að ekki er ástæða til að óttast skaðleg áhrif á fóstrið á fyrstu mánuðum meðgöngunnar.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur