Ég á erfitt með að umgangast aðra

Spurning:
Ég er ekki alveg viss hvernig ég á að útskýra þetta en ég reyni að gera það eins vel og ég get. Alveg síðan ég var lítil þá hef ég átt í vanda með að umgangast aðra. Þetta varð augljóst á mínum fyrsta leikskóladegi þar sem ég kúrði út í horni og vildi ekki leika með hinum börnunum. Ég beit frá mér og var hin versta þegar kennararnir reyndu að fá mig til að gera eitthvað, þannig að ég var strax send í skóla. Öll þau ár sem ég var í grunnskóla forðaðist ég alla hina. Ég var lögð í einelti í þeim skólum sem ég lærði og lenti í mörgum slagsmálum.

Svo þegar ég var komin í efri bekki grunnskólans var andlegt einelti ráðandi og skelin mín varð svo hörð að enginn komst í gegnum hana. Eftir grunnskólann lagðist ég í verulegt þunglyndi. Ég faldi það fyrir foreldrum mínum (og geri enn) og fór til sálfræðings án þeirrar vitundar. Þegar ég fór þangað þurfti ég að tala við þrjá sálfræðinga og allir voru þeir sammála um að ég ætti að taka inn nokkrar tegundir að pillum. Ég er með mikla fóbíu gagnvart pillum, þannig að ég neitaði að taka þær inn (sem ég hafði ekki efni á). Læknarnir voru ekki ánægðir og leyfðu mér að fara eftir langt þras.

Þetta var fyrir u.þ.b. þremur árum, og ég er orðin miklu verri. Ég er með skapsveiflur verri en björn og ég á ennþá erfiðara með að umgangast fólk. Þetta er allt í lagi gagnvart vinum mínum í skólanum, en þegar ég er með öðru fólki þá verð ég dauðþreytt. Það er eins og öll orkan sogist út úr mér þegar ég er með öðru fólki. Þegar ég er ein þá hef ég alla þá orku sem ég þarfnast, en þegar ég fer t.d. í veislur þá verð ég einfaldlega dauðþreytt og vil ekkert með þetta fólk hafa, jafnvel þótt það sé mín eigin fjölskylda. Það eru gildar ástæður fyrir þunglyndi mínu, þó ég geti ekki sagt það í þessu bréfi vegna þess að þá myndi fólk uppgötva hver ég væri.

En ég veit að þetta er ekki eðlileg hegðun; er eitthvað sem ég get gert?

Svar:
Takk fyrir fyrirspurnina. Samkv. þínu bréfi mæli ég með að þú leitir þér aðstoðar sálfræðings eða einhvers fagaðila sem stundar viðtalsmeðferð. Ég skil vel að þú sért hrædd við að fara á geðlyf vegna vanlíðunar en þó er það stundum nauðsynlegt eftir eðli og alvarleika vandans. Sálfræðingar gefa þó ekki lyf heldur eru það einungis læknar sem hafa leyfi fyrir slíku. Þú átt hrós skilið fyrir að leita þér sjálf aðstoðar 15 ára gömul. Á þessum aldri er erfitt að eiga frumkvæði að leita sér aðstoðar og lýsir því ákveðnum dugnaði sem tvímælalaust er hægt að nýta í sálfræðilegri meðferð. Ég mæli því eindregið með að þú leitir þér aftur aðstoðar og vonandi geturðu nýtt þér þá aðstoð sem þú færð nú þegar þú ert orðin eldri og með meiri þroska.

Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
s: 661-9068