Ég þarf meiri hvíld

Spurning:
Frá því að ég man eftir mér hefur mér alltaf gengið illa að sofna á kvöldin, viljað dunda mér við eitthvað fram eftir nóttu þótt allir aðrir væru sofnaðir, en ég er núna að verða fimmtugur og hef ekki sama úthald og áður, ég þarf að fá meiri hvíld. Ég hef prófað flest öll svefnlyf, en við notkun þeirra verð ég slappur daginn eftir og lít út eins og ég sé illa timbraður (eins og harmonika í framan). Ef ég tek hálfa panocod töflu og drekk sterkt glas af víni, sef ég vel en velti því fyrir mér hvort það hafi skaðleg áhrif á líkamsstarfsemi mína.
Með von um svar.

Svar:
Svefnþörf manna er mismikil og breytist með aldri. Líkaminn virðist hafa einhverja innbyggða klukku sem lætur ekki svo auðveldlega að sér hæða. Sú klukka gengur ekki alltaf í takt við þá klukku sem stjórnast af snúningi jarðar og ferð hennar um sólkerfið. Sólarklukkan stjórnar aftur á móti öllu þjóðfélaginu. Það er því hábölvað þegar líkamsklukkan er þannig úr takti við sólarganginn. Hefðbundin svefnlyf eru ágæt til að hjálpa fólki til að sofa þegar um tímabundna svefnerfiðleika er að ræða. Þau hafa þó þann galla að verkun þeirra minnkar yfirleitt eftir langvarandi notkun og þarf því að auka skammtinn til að ná fram verkun. Við það aukast líka aukaveranirnar sem eru jú ekki síst nokkurs konar timburmenn. Því er alls ekki mælt með að nota svefnlyf nema fáar vikur í senn. Til er efni sem heitir melantónín, og er af mörgum talið geta stillt þessa líkamsklukku og aðlagað hana að sólarganginum. Þetta er talið til lyfja hér á landi og þarf því sérstakan lyfseðil fyrir því þar sem ekki hefur verið sótt um markaðsleyfi fyrir því hér. (Sjá: http://www.doktor.is/grein/efni/grein.asp?id_grein=1081&flokkur=4&leit=svefnleysi )Það ,,svenlyf" sem þú lýsir, þ.e.a.s. hálf Panocod og sjúss, er í raun ekki svo frábrugðið hefðbundnu svefnlyfjunum. Dregið getur úr verkuninni og hætta er á að með tíð og tíma þurfi að stækka skammtinn til að ná fram verkun. Þá væri illa fyrir þér komið. Ég get þó sagt að ef ekki er um stærri skammt af þessu ,,svefnlyfi" að ræða, er það fremur meinlaust fyrir fullfrískan mann sem ekki neytir áfengis og lyfja að öðru leyti í óhófi. Ég vil þó benda á að ekki er mælt með notkun áfengis og parasetamóls, sem er annað virka efnið í Panocod, saman. Þessi efni keppa um sömu ensím í lifrinni og getur það reynst hættulegt. Það er því mjög mikilvægt að þú aukir ekki skammtinn. Einnig væri athugandi fyrir þig að nota bara annaðhvort Panocod eða sjússinn og þá jafnvel til skiptis. Einnig að nota þetta ekki á hverju kvöldi.Þú finnur nánari upplýsingar um svefnleysi á vefnum www.doktor.is með því t.d. að slá inn orðið svefnleysi í leitarreitinn á forsíðu vefsins og leita í greinasafni.Finnbogi Rútur Hálfdanarsonlyfjafræðingur