Spurning:
Góðann daginn.
Ég er 36 ára og er mikill skíðadellumaður. Undanfarin ár hef ég haft við það vandamál að stríða að ég þjáist af blóðleysi í fótunum (ofan í skíðaskóna). Skórnir þurfa náttúrulega að vera þéttir og fast smelltir, þetta hamlar blóðflæði niður í fæturnar (skóna). Þessu fylgja miklir verkir og hef ég þurft að skíða með frásmellta skó sem er beinlínis hættulegt.
Ég reyki og það af læknisráði, því ég er með Colitis Ulcerosa og get alls ekki hætt að reykja, þá fer allt af stað.
Spurningin er get ég gert eitthvað í þessu blóðflæðismáli? T.d. mataræði, hreyfing (ég hreyfi mig mikið nú þegar), lyf og hvaða lyf.
Með fyrirfram þökkum.
Kærar þakkir.
Svar:
Sæll.
Þakka þér fyrir mjög góða spurningu. Ég held að það séu þónokkrir sem kannist við það vandamál sem þú lýsir, þ.e. að skíðaskórnir þurfa að vera fast smelltir en ekki þó það fast að hindri blóðflæði.
Að sjálfsögðu er mikilvægt að huga að mataræði og reglubundinni hreyfingu, t.d. göngu, skokki eða hjólreiðum til þess að bæta blóðflæðið til ganglima. Einfalt mál er að mæla blóðflæðið með ákveðnu tæki (Doppler mæli) sem þinn læknir getur vafalaust framkvæmt eða sent þig í slíka rannsókn. Til eru lyf sem stundum eru notuð við slæmu blóðflæði til ganglima. Þetta eru svo kallaðir calsíum hemlar (calcium antagonist), og gagnast þau í sumum tilvikum en eiga að sjálfsögðu ekki við í öllum tilvikum. Dæmi um slík lyf eru: Verapamil, Cardizem, Plendil og Norvasc.
Þetta ættir þú að ræða frekar við þinn lækni.
Kveðja,
Emil L. Sigurðsson, heilsugæslulæknir.
Situr í stjórn Hjartaverndar.