Ég þjáist af krónískum kvíða

Spurning:

Heil og Sæl.

Þannig er mál með vexti að ég þjáist af krónískum kvíða. Þ.e. að ég er sífellt hræddur um að ég sé kominn með einhvern hættulegan sjúkdóm, jafnvel við vægustu einkenni. Núna hef ég fundið fyrir talsverðu máttleysi í fótum í rúmlega 3 vikur og lítillega í höndum líka. Þetta lýsir sér eins og þreyta í útlimum, en sársaukalaust. Ég er logandi hræddur um að ég sé kominn með einhverskonar taugalömunarsjúkdóm sem muni draga mig til dauða. En þar sem ég veit að ég þjáist af streitu velti ég því fyrir mér hvort einkennin gæti verið tilkomin vegna tíma sólarhringsins og þetta máttleysi hjálpar ekki. Ég vona að þið sjáið ykkur fært að svara bréfi mínu og sagt mér hvort einkennin gætu verið tilkomin af streitu.

Takk fyrir.

Svar:

Heill og sæll.
Þú spyrð hvort þau einkenni sem þú lýsir, þ.e. sífelldur ótti við að vera kominn með einhvern sjúkdóm, geti verið tilkomin vegna streitu. Það er nokkuð til í því. Mikilli streitu fylgja ýmis líkamleg einkenni sem þýða ekki endilega að um einhvern ákveðinn sjúkdóm sé að ræða. Annar fylgifiskur streitu eru áhyggjur og kvíði. Þegar þetta kemur saman getur auðveldlega orðið til vítahringur sem auðvelt er að festast í. Þessi vítahringur getur t.d. virkað þannig að minnstu líkamlegu einkenni sem þú finnur fyrir verða tilefni til vangaveltna um alvarlegan sjúkdóm. Þegar þú ert síðan búinn að sannfæra þig um að hér geti einhver ákveðinn sjúkdómur t.d. taugalömunarsjúkdómur verið á ferð fylgist þú enn betur með einkennunum og sannfærist enn frekar um þína eigin sjúkdómsgreiningu. Þetta gerir þig kvíðnari og verr í stakk búinn til þess að sinna öðru en áhyggjum þínum.

Þrátt fyrir að ég telji að um vítahring sé að ræða ráðlegg ég þér að leita til heimilislæknis. Niðurstaða hans gefur þér upplýsingar um að hverju þú þarft að beina athygli þinni. Það er þó oft þannig að góðar niðurstöður nægja oft ekki til þess að róa viðkomandi. Ef áhyggjurnar halda áfram held ég að það sé gott fyrir þig að leita þér aðstoðar hjá einhverjum fagmanni, t.d. sálfræðingi. Hann gæti hjálpað þér að fara yfir stöðuna, skýra hvers eðlis hún er og benda þér á leiðir til þess að líða betur.

Bestu kveðjur og óskir um gott gengi.

Hörður Þorgilsson, sálfræðingur