Ég er 16 ára og vantar æfingaplan

Spurning:

Sæl.

Ég er 16 ára og er með nokkrar spurningar.

Léttist maður ekki við það að fara að lyfta 3 – 5 sinnum í viku? Ætti maður að stunda einhverja þolþfjálfun með, t.d. hlaup?

Getur þið bent mér á eitthvað æfingaplan og hve oft ég ætti að lyfta, þyngdir á lóðum, hvað oft ég ætti að fara út að hlaupa, hvað langt og hvað lengi?

Takk kærlega fyrir.

Svar:

Sæl.

Með því að lyfta lóðum eykurðu vöðvamassann í líkamanum og eykur um leið grunnbrennsluna sem þýðir að þú brennir fleiri hitaeiningum á sólarhring. Gott er að stunda styrktarþjálfun með lóðum 2x-3x í viku eða annan hvern dag. Þú getur æft oftar en þá ættirðu að skipta niður vöðvahópunum þannig að þú reynir ekki á sömu vöðvahópana dag eftir dag heldur hvílir a.m.k. einn sólarhring á milli.

Það er einnig mikilvægt að þjálfa hjarta og æðakerfið með því að stunda þolþjálfun og það er góð leið til að hita vel upp fyrir styrktaræfingarnar. Æfingaálagið fer eftir getu þinni og best að byrja rólega og auka smám saman við álag. Ég ráðlegg þér að leita til þjálfara til að fá æfingaplan því til þess að setja slíkt saman þurfa að liggja fyrir ýmsar staðreyndir um líkamsástand fólks. Þumalfingursreglan í þjálfun er þó alltaf sú að byrja rólega og auka álagið eftir getu.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari