Ég er byrjuð í átaki (hreyfing og mataræði)

Spurning:

Sæl.

Ég er 30 ára og er mjög þung (BMI u.þ.b. 44) og hef verið það frá 4-5 ára aldri. Ég er með 2 lítil börn og á því ekki auðvelt með að komast að heiman á líkamsræktarstöð.

Ég byrjaði í desember að breyta mataræði mínu þ.e. minnka neyslu gosdrykkja og sælgætis og auka mjög mikið vatnsneyslu (drekk u.þ.b. 3 lítra). Um miðjan mars var ég búinn að missa 3-4 kg. Fyrir 3 vikum keypti ég mér þrekhjól og byrjaði að hjóla heima á kvöldin. Ég reyni að hjóla í 45 mín á dag. Að jafnaði hjóla ég í 3 daga og tek svo 1 dag frí. Ég er farinn að finna árangur, meðalhraði minn hefur aukist úr 17,3 km/klst í 22,7 km/klst þ.e. ég hjólaði fyrst u.þ.b. 13 km en hjóla núna 17 km á 45 mínutum. Seinustu 3 vikurnar hafa 1,5 kg að auki farið. Ég finn að þetta er rétta hreyfingin fyrir mig en ég má bæta mig í mataræðinu og er að vinna í því.

Mitt mottó er að góðir hlutir gerast hægt. Ég er að spá í er ég að gera rétt? Og einnig á ég að breyta hjóla planinu á einhvern hátt eftir því sem þrekið eykst? Á ég að auka þyngdarstig á hjólinu? Ég hjóla núna á þyngdarstiginu 2.Á ég að auka hraðann eins og ég get? Á ég að lengja tímann sem ég hjóla? Á ég að hjóla og nota mismunandi styrkleikastig? Með von um svar.

Ein bjartsýn!

Svar:

Sæl.

Til hamingju með að vera búin að stíga skrefið í átt til betri heilsu. Þú ert að gera þetta alveg hárrétt. Það sem ég ráðlegg þér að hafa í huga þegar þú breytir smátt og smátt álaginu í æfingakerfinu þínu er að huga ávallt að fjölbreytni. Einn daginn geturðu aukið þyngdarstigið og hjólað með talsverða þyngd og reynt þannig á lærvöðvana og fengið hjartsláttinn vel upp. Svo næst hjólað á miðlungs hraða og frekar lágu þyngdarstigi í 50-60 mín. Næst prófað að hjóla mjög hratt og hægt til skiptis 2 mín í senn í samtals 20-30 mín.

Ímyndaðu þér að þú sért að hjóla úti og þú hjólar upp brekkur (þungt) og svo hjólarðu á jafnsléttu og niður í móti og á móti vindi o.s.frv. Fjölbreytnin kemur í veg fyrir að líkaminn staðni og venjist álaginu. Þannig tryggir þú hámarks brennslu í hverri æfingu.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari