Spurning:
ÉG er í smá krísu! Ég er búinn að vera í sambandi í rúma 4 mánuði og með stelpu sem er aðeins yngri en ég, bæði um tvítugt. Við erum rosalega ástfangin og hvofrugu okkar hefur liðið svona áður. Við náðum vel saman strax frá upphafi og erum mjög góðir vinir. Það eina sem er að skemma fyrir okkur er afbrýðisemi mín!! Ég verð alltaf mjög óöruggur og afbrýðisamur þegar ég heyri minnst á fyrrverandi hennar eða á kynferðislega fortíð hennar. Ég vil helst ekkert af henni vita. Ég á sjálfur fortíð, sem ég er reyndar ósáttur við sjálfur, var mjög lauslátur og hef sofið hjá miklu fleirri heldur en ég kæri mig um að hafa gert. Hún hefur hinsvegar bara sofið hjá 5strákum, reyndar á stuttum tíma en var samt í einhverskomnar sambandi með þeim öllum. Þetta finnst mér "hræðileg" tilhugsun!! Ég hef sjálfur komið mjög illa fram við stelpur á kynferðissviðinu og hef gert hluti sem ég vil ekki að hún hafi "lent í" eða tekið þátt í. Hún hefur "misst" útúr sér einhver atriði úr sinni fortíð sem að hafa valdið okkur miklum erfiðleikum og oft hávaðarifrildum. Ég var ekki svona abbó fyrst en eftir að mér fór að þykja vænt um hana og bera virðingu fyrir henni þá kom þetta og reynir að skemma. Hún er líka sjálf farin að verð abbó útí mína fortíð..!
Við reynum að forðast að tala um þetta en stundum poppar þetta bara upp og ég ræð ekkert við hugsanir mínar! Svo er ég líka hræddur um að við séum bæði farin að skálda upp fortíð sem að hinn aðilinn getur sætt sig við.. og það er eitthvað sem ég vil ekki að gerist! EN ég kæri mig samt ekkert um að vita um þessa kynferðislegu fortíð…og vil ekki tala um mína…samt spyr ég! Ég hef reynt ýmislegt til að breyta þessu en ekkert hefur virkað til lengdar! Hvað er til ráða? Það er kannski rétt að taka það fram að ég er skilnaðarbarn, hef lent í misnotkun, svikum í ástarsamböndum og hef sjálfur verið óheiðarlegur. En mig langar að breytast! Ég elska hana og vil vera með henni og það er ólíklegt að það breytist! ég hef hætt með stlepum fyrir að hafa gert eitthvað í fortíð sinni sem mér mislíkaði…
Svar:
Afbrýðisemi í upphafi sambands er ekkert óvenjuleg og oft álitin eðlileg. Ástæða þess er að í byrjun erum við gjarnan óörugg með tilfinningar hins aðilans í okkar garð. Þannig tengist afbrýðisemi óttanum við að verða hafnað. Ef afbrýðisemin stendur mjög lengi, eða tengist endalausum vangaveltum um fyrri lífsreynslu makans, er hún augljóst merki um skort á sjálfstrausti. Það stafar af því að viðkomandi getur ekki treyst því að hann sé þess virði að hinn aðilinn elski hann.
Óttinn við að hinn aðilinn yfirgefi þann afbrýðisama eða hafni honum af þessum sökum verður til þess að sá afbrýðisami reynir yfirleitt tvennt.
-Í fyrsta lagi að finna leið til þess að létta höfnunina ef makinn skyldi fara. Það getur verið með því að reyna að staðfesta að makinn sé sjálfur ekki þess virði að vera elskaður of mikið, en getur einnig verið með því að verða fyrri til að hafna makanum.
-Í öðru lagi reynir sá afbrýðisami yfirleitt á sama tíma að gera allt sem honum dettur í hug til að koma í veg fyrir að makinn fari. Þar sem sjálfstraustið er ekki mikið þýðir það yfirleitt alls konar meðvirkni og undirgefni.
Þegar afbrýðisemin er á þessu stigi eru viðbrögð þess afbrýðisama á þá lund, að hann gerir sig minna og minna spennandi í augum makans, sýnir sífellt meira óöryggi og skort á sjálfstrausti og er því í raun og veru að vinna að því að makinn gefist upp og fari. Hinn afbrýðisami er þannig stöðugt upptekinn af makanum og hans lífi og gleymir eða kann ekki að rækta sjálfan sig og verður þannig óspennandi sjálfur sem maki. Eða hvort heldur þú að geri þig sjálfan meira spennandi sem maka að vera ætíð óöruggur og undirgefinn til að halda í maka þinn eða sýna öryggi og sjálfstraust um að vissulega sért þú þess virði að vera elskaður og að ef maki þinn elskar þig ekki, þá getur hann átt sig því þú ætlar ekki að lifa við það?
Miðað við lýsingu þína er afbrýðisemi þín merki um skort á sjálfstrausti hjá þér og þú ert þegar byrjaður að vinna gegn sjálfum þér og gera þig lítt spennandi sem maka. Þú hefur verið í endalausri leit að sjálfum þér í gegnum konur og hefur reynt að sanna, fyrst og fremst fyrir þér sjálfum að þú sért einhvers virði vegna þess að þér gengur ekki illa að ná þér í konu. Nú telur þú þig hafa fundið ástina. Samkvæmt lýsingu þinni á ég reyndar erfitt með að sjá í hverju þú telur ástina vera fólgna. Bréf þitt ber miklu frekar með sér að þú sért háður en ástfanginn. Ég ráðlegg þér því að leita þér sem fyrst aðstoðar við að finna sjálfan þig, styrkja sjálfstraust þitt og sjálfsvirðingu þína. Annars er mikil hætta á því að þetta samband endist ekki lengi.
Gangi þér vel, Sigtryggur